„Pressan er öðruvísi þegar þú ert þjálfari og það er erfitt að bera þetta saman. Sem leikmaður getur þú verið í alls konar hlutverkum. Pressan er öðruvísi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við mbl.is.
Snorri Steinn fékk gult spjald í leiknum við Slóveníu á mánudagskvöld, þar sem hann lifði sig vel inn í leikinn, of vel að mati dómaranna.
„Þessi ástríða hefur alltaf fylgt mér sem þjálfari. Ég lifi mig inn í þetta og tek þetta inn á mig, það er engin spurning,“ sagði Snorri.
En er hann ósáttur við gulu spjöldin sem hann fær stundum?
„Mér finnst þetta oftast vera einhver þvæla. Það eru 30 eftirlitsmenn að fylgjast með og hafa áhyggjur af þessu. Eflaust fer ég einhvern tímann yfir strikið. Ef þetta helst bara í gulu spjaldi sleppur þetta,“ sagði hann.