Hvað þarf að gerast á sunnudaginn?

Íslensku leikmennirnir voru að vonum daufir í dálkinn í leikslok. …
Íslensku leikmennirnir voru að vonum daufir í dálkinn í leikslok. Þeir höfðu kastað frá sér gullnu tækifæri til að komast í átta liða úrslitin. mbl.is/Eyþór Árnason

Eftir tapið gegn Króatíu í kvöld, 32:26, er staða íslenska liðsins á heimsmeistaramóti karla í handknattleik mjög erfið og mestar líkur á að það komist ekki í átta liða úrslitin.

Möguleikarnir eru þó ekki endanlega úr sögunni en nú þarf óvænt úrslit til að það megi verða.

Ef Ísland vinnur Argentínu, Egyptaland vinnur Grænhöfðaeyjar og Króatía vinnur Slóveníu í lokaumferðinni á sunnudag fá Ísland, Egyptaland og Króatía öll 8 stig.

Þá vinnur Króatía riðilinn, Egyptaland endar í öðru sæti og kemst líka í átta liða úrslit en Ísland endar í þriðja sæti og fer heim, þrátt fyrir að hafa unnið fimm af sex leikjum sínum á mótinu.

Þá ráða innbyrðis úrslit liðanna þriggja og þar er markatala Íslands verst eftir sex marka tapið í kvöld. Þriggja marka tap hefði nægt íslenska liðinu til að skilja Króatana eftir í þriðja sætinu.

Ef Grænhöfðaeyjar taka stig af Egyptalandi fer Ísland áfram með því að vinna Argentínu, og þá ásamt annað hvort Króatíu eða Egyptalandi, eftir því hvernig fer hjá Króötum og Slóvenum.

Ef Egyptaland vinnur en Slóvenía tekur stig af Króatíu fer Ísland áfram með því að vinna Argentínu og þá ásamt Egyptalandi - og þá stendur Ísland uppi sem sigurvegari í riðlinum!

Slóvenar geta mest náð 6 stigum og hafa að litlu að keppa gegn nágrönnum sínum frá Króatíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert