„Fyrst og fremst þá vorum við ekki nægilega góðir,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir sex marka tap, 32:26, gegn Króatíu í milliriðli fjögur á heimsmeistaramótinu í Zagreb í Króatíu í kvöld.
Tapið gerir það að verkum að Ísland fer úr efsta sæti riðilsins og niður í það þriðja en íslenska liðið þarf sigur í lokaleik sínum gegn Argentínu og treysta á að Króatía tapi stigum gegn Slóvenum sem hafa að engu að keppa eða að Egyptaland tapi stigum gegn Grænhöfðaeyjum til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitum mótsins.
„Við gáfum færi á okkur sem þeir nýttu sér vel. Við náðum ekki upp sömu frammistöðu og í síðustu tveimur leikjum. Við gerum of mörg tæknileg mistök líka og svo förum við illa með dauðafærin. Það er mjög dýrt í svona leik. Takturinn var allan tímann með þeim en ekki okkur og okkur tókst aldrei að gera þeim erfitt fyrir og setja pressu á þá,“ sagði Snorri Steinn.
Varnarleikur íslenska liðsins var afar slakur í fyrri hálfleik þar sem liðið fékk á sig 20 mörk en hvað vantaði upp á þar?
„Það er erfitt að setja fingur á það svona rétt eftir leik. Ég þarf að skoða það betur en það vantaði ekkert upp á ákefðina og baráttuna hjá mínum mönnum. Þeir voru að leggja sig fram allan tímann og það var barátta í liðinu en stundum dugar það ekki til. Stundum hittir þú á það og stundum ekki og þetta var ekki okkar besti leikur í dag.“
14.000 stuðningsmenn studdu króatíska liðið áfram í troðfullri höll í Zagreb og var stemningin mikil hjá Króötunum allan leikinn.
„Það er alltaf erfitt að spila á móti heimaþjóð og við vissum það alveg og ræddum það fyrirfram að þetta gæti gerst. Mér fannst við reyna allan tímann og reyndum að koma til baka. Við prófuðum ýmislegt sem virkaði ekki í dag.“
Eins og áður sagði á íslenska liðið litla möguleika á því að komast áfram í átta liða úrslitin þrátt fyrir að sannfærandi sigra í fyrstu fjórum leikjum mótsins.
„Næstu dagar verða erfiðir og þungir. Við þurfum að mæta í næsta leik, klára hann og sjá svo til en ég held að við munum ekki fá mikla hjálp. Þessi leikur var mjög dýr og það er auðvitað gríðarlega sárt. Ég er ekki kominn þangað að fara gera upp einhverja hluti. Við þurfum að jafna okkur og okkur ber skylda til þess að klára þetta mót almennilega,“ bætti Snorri Steinn við í samtali við mbl.is í Zagreb.