„Þeir voru bara betri en við á öllum sviðum leiksins,“ sagði Viggó Kristjánsson, hægri skytta íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Króatíu í milliriðli á HM í handbolta í kvöld.
„Við vorum vel undirbúnir en einhvern veginn ná þeir upp þessari stemningu, spila fast á okkur í vörninni og svo vorum við að láta hann verja allt of mikið frá okkur.
Við töpum einhverjum boltum og þeir skora úr hraðaupphlaupum. Það var sambland af þessu öllu sem gerði það að verkum að við vorum með tapaðan leik í hálfleik,“ sagði Viggó en staðan var 20:12 í hálfleik.
Fyrir vikið voru lætin í höllinni gríðarleg og brött brekka varð enn brattari.
„Versta sem getur gerst fyrir andstæðing er að lenda í þessu á móti liði sem er á heimavelli fyrir framan fulla höll. Það er synd og ótrúlega leiðinlegt að geta ekki spilað betur fyrir alla Íslendingana í stúkunni.“
Ísland vann fjóra fyrstu leiki sína á mótinu en tapið í kvöld gæti reynst afar dýrkeypt því íslenska liðið þarf að treysta á að Króatía eða Egyptaland tapi stigum í lokaumferðinni á meðan Ísland þarf að vinna Argentínu.
„Þetta er fljótt að gerast í handboltanum. Króatar voru í erfiðri stöðu fyrir leikinn og með bakið upp við vegg. Nú er þetta öfugt og við með bakið upp við vegg. Við þurfum að klára þennan Argentínuleik og svo vonum við það besta.“
„Það er fínt að það sé leikur eftir tvo daga en það er skellur að staðan sé ekki betri úr því sem komið var,“ sagði Viggó.