Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra mætir á hverju ári á stórmót í handbolta á þessum árstíma til að styðja son sinn og landsliðsmanninn Gísla Þorgeir Kristjánsson og liðsfélaga hans.
Hún er nú á sínu fyrsta móti sem utanríkisráðherra, en hún var löngu búin að bóka ferð til Króatíu áður en kosið var til Alþingis á síðasta ári og starfstitilinn breyttist í kjölfarið.
„Ég er alltaf mamma og það breytist ekki með starfstitlinum. Við vorum löngu búin að bóka þetta áður en Bjarni sleit ríkisstjórninni. Þetta er fjölskylduferð og jólagjöf til dóttur okkar. Hér er ég bara stuðningskona íslenska landsliðsins og manneskja sem missir röddina reglulega.
Ég held með strákunum mínum. Stundum er þetta smá vesen með nýja starfstitlinum en það er önnur saga,“ sagði Þorgerður hlæjandi við mbl.is.