Króatarnir voru ekki ánægðir með mig

Einar Þorsteinn fyrir utan hótel landsliðsins í Zagreb.
Einar Þorsteinn fyrir utan hótel landsliðsins í Zagreb. mbl.is/Eyþór

Einar Þorsteinn Ólafsson fékk meiri spiltíma en í undanförnum leikjum þegar Ísland mátti þola tap fyrir Króatíu á HM í handbolta á föstudagskvöld. 

„Stemningin í klefanum var ekki góð en við höldum höfðinu uppi þar til þetta er búið. Við höldum í trúna og gerum það þangað til vonin er alveg úti.

Það var ekki mikið sagt í klefa eftir leik en við megum ekki gefast upp. Við verðum að koma af krafti gegn Argentínu, klára það með stæl og svo sjáum við hvað gerist,“ sagði Einar við mbl.is.

Verkefni Einars var að riðla sóknarleik Króata á lokamínútunum og reyna að þvinga þá í mistök.

„Ég var tilbúinn að gera mitt besta. Snorri sagði mér hvað ég átti að gera og ég reyndi að gera það eins vel og ég gat. Þegar staðan er svona þá tekur maður sénsa. Króatarnir voru ekkert sérstaklega ánægðir með mig á tímapunkti þegar ég var kominn á þeirra vallarhelming. Maður gerir hvað sem er til að koma til baka.“

Einar ræðir við mbl.is í dag.
Einar ræðir við mbl.is í dag. mbl.is/Eyþór

Tapið þýðir að Ísland þarf að treysta á önnur úrslit til að komast í átta liða úrslit, en þrátt fyrir það naut Einar þess að spila fyrir framan fulla höll í Zagreb.

„Það er sturlað að spila í svona stórri höll, fyrir framan svona marga og á þeirra heimavelli. Það var bilun. Svo var pakkað af Íslendingum sem maður þekkir og þessi blanda er svaðaleg. Því miður nýttum við það ekki nógu vel.“

Einar hefur verið utan hóps í sumum leikjum og mikið á bekknum í öðrum. Hann fékk því kærkomið tækifæri gegn Króatíu.

„Þetta hefur snúist um að halda höfðinu uppi, vinna mína vinnu og vera klár þegar tækifærið kemur. Ég get lítið annað gert,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert