Svíar áttu ekki roð í Norðmenn

William Aar skoraði níu mörk fyrir Noreg.
William Aar skoraði níu mörk fyrir Noreg. AFP/Terje Pedersen

Noregur lauk keppni í milliriðli 3 á HM karla í handbolta með því að vinna öruggan sigur á nágrönnum sínum í Svíþjóð, 29:24, í Bærum í Noregi í kvöld.

Fyrir leikinn var ljóst að bæði lið væru úr leik og Portúgal og Brasilía búin að tryggja sig áfram.

Noregur hafnar í þriðja sæti milliriðils 3 með sex stig og Svíþjóð fékk fjögur stig.

Í kvöld var Noregur með yfirhöndina allan tímann og náði til að mynda mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 16:8.

Svíar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörk hálfleiksins og staðan að honum loknum því 16:11.

Í síðari hálfleik var Noregur áfram við stjórn, hleypti Svíum ekki nær sér en þremur mörkum og vann að lokum þægilegan fimm marka sigur.

William Aar átti stórleik fyrir Norðmenn en hann var markahæstur í leiknum með níu mörk. Kristian Björnsen bætti við sex mörkum.

Hjá Svíþjóð var Eric Johansson markahæstur með sjö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert