Getum ekki alltaf treyst á einstaklingsgæðin

Þjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson nær vel til leikmannanna, að mati …
Þjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson nær vel til leikmannanna, að mati Erlings, en þyrfti að vera með fleiri plön í gangi í vörn og sókn. Morgunblaðið/Eyþór

Íslenska karla­landsliðið í hand­bolta hafnaði í 9. sæti á heims­meist­ara­mót­inu sem nú stend­ur yfir í Króa­tíu, Dan­mörku og Nor­egi.

Íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppn­inni, gegn Græn­höfðaeyj­um, Kúbu og Slóven­íu, og komst áfram í mill­iriðlakeppn­ina með fullt hús stiga eða fjög­ur stig.

Liðið lagði Egypta­land og Arg­entínu í mill­iriðlin­um en tapaði fyr­ir Króa­tíu sem gerði það að verk­um að Króatía, Egypta­land og Ísland enduðu öll með átta stig. Króatía og Egypta­land fóru áfram í átta liða úr­slit­in þar sem liðin voru með bestu inn­byrðismarka­töl­una en Ísland sat eft­ir með sárt ennið.

„Ef ég man rétt var okk­ur spáð í kring­um 9.-10. sæti, meðal ann­ars hjá Bri­an í HR, og við erum á pari við það,“ sagði Erl­ing­ur Birg­ir Rich­ards­son, yfirþjálf­ari hjá Möd­ling í Aust­ur­ríki, en hann gerði ÍBV að Íslands­meist­ur­um árið 2023 og HK árið 2012 og þá hef­ur hann einnig stýrt landsliðum Hol­lands og Sádi-Ar­ab­íu á ferl­in­um.

„Miðað við það hvernig mótið spil­ast er ansi fúlt að detta úr leik eft­ir fimm sigra og eitt tap. Það er mjög stutt á milli í þessu og á end­an­um er það marka­tal­an sem ger­ir út­slagið. Þetta er í fyrsta sinn sem lið með átta stig kemst ekki áfram sem ger­ir þetta ennþá meira svekkj­andi en 9. sætið er bara nokkuð góður ár­ang­ur. Það má held­ur ekki gleyma því að þú vinn­ur þér líka inn sæti frá 8-12 með góðri frammistöðu þó svo að ekki ná­ist að kom­ast í undanúr­slit,“ sagði Erl­ing­ur.

„Sam­kvæmt spám er ár­ang­ur­inn viðund­andi en ef horft er til stiga­fjölda þá átt­um við skilið að fara lengra. Ég held að reynslu­leysi Snorra Steins hafi aðeins komið í ljós á móti Króöt­un­um og hann hef­ur aðeins komið inn á það sjálf­ur. Við brugðumst ekki rétt við stöðunni sem var kom­in upp en þetta fer í reynslu­bank­ann hjá hon­um og liðinu.

Við erum með mjög spræka leik­menn á góðum aldri sem standa sig vel með sín­um fé­lagsliðum. Það virðist vera góð stemn­ing í hópn­um og það er ákveðin út­geisl­un líka yfir leik­mönn­um liðsins. Snorri virðist ná vel til leik­mann­anna og miðað við viðtöl og annað eru leik­menn líka virk­ir þátt­tak­end­ur í allri ákv­arðana­töku. Ég skynja já­kvæða áru yfir þessu liði.“

Breytt hug­mynda­fræði

Get­ur Ísland unnið til verðlauna á stór­móti í ná­inni framtíð?

Erlingur Birgir Richardsson hefur m.a. stýrt landsliðum Hollands og Sádi-Arabíu.
Erl­ing­ur Birg­ir Rich­ards­son hef­ur m.a. stýrt landsliðum Hol­lands og Sádi-Ar­ab­íu. Ljós­mynd/​Sig­fús Gunn­ar

„Já, ég held það, en við þurf­um samt að fara að vinna eft­ir ákveðinni hug­mynda­fræði. Við get­um ekki alltaf treyst ein­göngu á ein­stak­lings­gæðin. Hug­mynda­fræðin sem unnið er eft­ir þarf að vera mark­viss­ari og sterk­ari, al­veg frá Hand­knatt­leiks­sam­bandi Íslands og út í fé­lög­in.

Við búum til mjög mikið af leik­mönn­um en hug­mynda­fræðin hjálp­ar okk­ur ekki. Við þurf­um að virkja plan B og plan C og hvernig við ætl­um til dæm­is að nýta okk­ur stór­ar skytt­ur. Það þarf að byrja að vinna eft­ir fast­ara plani og sú vinna þarf að byrja strax í yngri flokk­un­um, þaðan upp í yngri landsliðin, meist­ara­flokk­ana og svo út í A-landsliðið,“ bætti Erl­ing­ur við í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Viðtalið í heild sinni er í Morg­un­blaðinu í dag

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert