Tveir sterkir sigrar SR

SR hafði betur gegn SA tvisvar í gærkvöld.
SR hafði betur gegn SA tvisvar í gærkvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kvenna- og karlalið SR unnu báða sína leiki í toppdeildum kvenna og karla í íshokkí í skautahöllinni í Laugardal í gærkvöld.

Í fyrri leiknum hafði kvennalið SR betur gegn SA, 3:1. Inga Aradóttir, Saga Sigurðardóttir og Zuzana Sliacka skoruðu mörk SR en mark Akureyringa skoraði Kolbrún Björnsdóttir.

SR er áfram á botni deildarinnar með 12 stig en SA er í öðru sæti með 23 stig.

Í seinni leiknum valtaði karlalið SR yfir SA, 3:0. Sölvi Atlason skoraði tvö mörk og Gunnlaugur Þorsteinsson skoraði eitt fyrir heimamenn.

Þetta voru dýrmæt þrjú stig fyrir SR en liðið er í harðri baráttu við Fjölni um sæti í úrslitum. SR er í öðru sæti með 29 stig, tveimur stigum á undan Fjölni í þriðja sæti. SA hefur hins vegar tryggt sér sæti í úrslitum en liðið er á toppnum með 35 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert