Það var mögnuð tilfinning

Benoný Breki Andrésson fagnar með Stockport.
Benoný Breki Andrésson fagnar með Stockport. Ljósmynd/Stockport

Benoný Breki Andrésson hefur látið vel að sér kveða með Stockport í ensku C-deildinni í fótbolta eftir áramót. Hann fékk lítið að spila í upphafi árs er hann kom til félagsins frá KR en undanfarnar vikur hafa gengið vel og Benoný verið á skotskónum.

„Síðustu vikur hafa verið flottar. Ég vissi áður en ég fór út að ég þyrfti að vera þolinmóður. Ég hef svo nýtt tækifærið þegar það kom,“ sagði hann við mbl.is.

Hann skoraði tvö fyrstu mörkin sín fyrir Stockport er liðið sigraði Blackpool, 2:1, 1. mars síðastliðinn.

„Það var mögnuð tilfinning. Nú verð ég bara að halda áfram. Þetta er mikil fótboltaþjóð og einfaldur fótbolti,“ sagði hann.

Stockport er í 5. sæti deildarinnar með 65 stig eftir 37 leiki. Liðið er sex stigum frá Wycombe í öðru sæti en tvö efstu liðin fara beint upp. Liðin í 3.-6. sæti fara í umspil. Næsti leikur er gegn Wrexham í þriðja sæti.

„Mér líst vel á þessa baráttu. Við eigum enn möguleika á að ná öðru sætinu. Næst er stórleikur og ef við vinnum hann getum við komist ofar í töflunni,“ sagði Benoný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert