Grindavík er komið í undanúrslit Íslandsmóts karla í körfubolta eftir 82:74 sigur gegn Val í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum í Smáranum í kvöld. Grindavík vann einvígið 3:1 og er annað liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitunum á eftir Tindastóli.
Valsmenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Þeim tókst að byggja upp 12 stiga forskot í stöðunni 20:8 í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar sem spiluðu mjög öflugan varnarleik í síðasta leik voru oft á tíðum galopnir í vörn sinni og notfærðu Valsmenn sér það.
Eftir fyrsta leikhluta leiddi Valur með 11 stiga mun. Valsmenn náðu aftur 12 stiga forskoti í stöðunni 30:18. Virtist sem munurinn mætti aldrei ná 7 stiga mun því þá settu Valsmenn kraft í leik sinn að nýju og juku forskotið aftur.
Það sem mestu munaði var að Grindvíkingum tókst ekki að frákasta í fyrri hálfleik og fengu Valsmenn oft nokkur tækifæri til að setja körfur í sóknum sínum. Þegar fyrri hálfleik lauk var staðan 47:37 fyrir Valsmönnum sem voru betra liðið í fyrri hálfleik.
Grindvíkingar náðu frábærum kafla í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn niður í eitt stig í stöðunni 55:54 fyrir Val. Grindvíkingar fengu síðan tækifæri til að komast yfir en tókst það ekki og notfærðu Valsmenn sér það með því að byggja upp 6 stiga forskot í stöðunni 60:54. Þriðja leikhluta lauk síðan með tveggja stiga körfu frá Ólafi Ólafssyni og staðan 62:59 fyrir Val. Þriggja stiga munur fyrir loka leikhlutann.
Deandre Donte Kane minnkaði muninn niður í eitt stig í byrjun fjórða leikhluta með tveimur vítaskotum og staðan 62:61 fyrir Val. Joshua Jefferson setti þá niður tveggja stiga körfu og þar að auki víti og staðan 65:61 fyrir Val.
Grindvíkingar gátu jafnað eða komist yfir í stöðunni 65:63 fyrir Val. Það tókst í annari tilraun þegar Deandre Kane setti niður þriggja stiga körfu og Grindvíkingar yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Staðan 66:65 fyrir Grindavík.
Valsmenn komust yfir með þriggja stiga körfu frá Joshua Jefferson og staðan 68:66 fyrir Val. Ólafur Ólafsson jafnaði leikinn fyrir Grindavík og síðan var það Daniel Mortensen sem kom Grindavík þremur stigum yfir með þriggja stiga körfu í stöðunni 71:68 fyrir Grindavík.
Valsönnum tókst að minnka muninn niður í eitt stig þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum og staðan 75:74. Þá kom risastór þriggja stiga karfa frá Deandre Kane og í kjölfarið setti Jeremy Raymon Pargo layup körfu og staðan orðin 80:74 fyrir Grindavík.
Valsmenn tóku leikhlé þegar 49,1 sekúnda var eftir og freistuðu þess að setja þriggja stiga körfu. Þeir fengu til þess fimm tækifæri en öll skot þeirra klikkuðu áður en Grindvíkingar náðu loksins frákastinu og þeir með pálmann í höndunum.
Þegar 21,5 sekúnda var eftir byrjuðu Valsmenn að brjóta og senda Grindvíkinga á vítalínuna. Kane setti niður tvö vítaskot og þá var leiknum lokið og Valsmenn köstuðu inn handklæðinu.
Deandre Donte Kane skoraði 25 stig fyrir Grindavík og tók auk þess 11 fráköst. Taiwo Hassan Badmus skoraði 24 stig fyrir Val og tók Frank Aron Booker 10 fráköst fyrir Valsmenn.