Tap fyrir Finnum í spennuleik

Petteri Koponen og Martin Hermannsson berjast í leiknum í kvöld.
Petteri Koponen og Martin Hermannsson berjast í leiknum í kvöld. AFP

Finnland hafði betur gegn Íslandi 83:79 í síðasta leik A-riðils úrslitakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik í Hartwall-höllinni í Helsinki. Finnar unnu fjóra leiki af fimm og höfnuðu í 2. sæti riðilsins. Finnland fer í 16-liða úrslit en Ísland fer heim án sigurs. 

Finnland var yfir 42:40 að loknum fyrri hálfleik. Ísland var þá yfir 40:39 en Finnar skoruðu síðustu körfuna frá miðju þegar leiktíminn rann út. Fyrir síðasta leikhlutann var Ísland yfir 59:52. En Finnar tryggðu sér sigur með góðum leik á lokakaflanum. Er þetta í þriðja skipti í mótinu sem þeir snúa erfiðri stöðu í sigur í síðasta leikhlutanum. Gerðu það einnig gegn Frökkum og Pólverjum. 

Dómgæslan var Íslendingum ekki hliðholl. Segir það væntanlega eitthvað að þrír lykilmenn Íslands Jón Arnór, Haukur Helgi og Hlynur fengu allir fimm villur. Þess ber þó að gera að fyrst og fremst einn dómari af þremur tók stórar ákvarðanir í þessum leik. 

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 13 stig, Hlynur Bæringsson var með 12 eins og Martin Hermannsson. Þá gerði Haukur Helgi Pálsson 11 stig og Kristófer Acox 10 stig. Pavel Ermolinskij tók 5 fráköst og þeir Martin, Hlynur og Hörður Axel Vilhjálmsson gáfu 5 stoðsendingar hver. 

Íslenska liðið lauk því keppni á EM með sinni langbestu frammistöðu í mótinu. Alla vega þegar horft er á heilan leik en vissulega komu jafn góðir kaflar í öðrum leikjum en þessi var sá eini sem var enn spennandi í síðasta leikhlutanum. 

Lið Íslands1 Martin Hermannsson, 3 Ægir Þór Steinarsson, 6 Kristófer Acox, 8 Hlynur Bæringsson, 9 Jón Arnór Stefánsson, 10 Elvar Már Friðriksson, 13 Hörður Axel Vilhjálmsson, 14 Logi Gunnarsson, 15 Pavel Ermolinskij, 24 Haukur Helgi Pálsson, 34 Tryggvi Snær Hlinason, 88 Brynjar Þór Björnsson.

Lið Finnlands: 4 Mikko Koivisto, 7 Shawn Huff, 8 Gerald Lee, 9 Sasu Salin, 10 Tuukka Kotti, 11 Petteri Koponen, 12 Matti Nuutinen, 15 Teemu Rannikko, 22 Carl Lindbom, 23 Lauri Markkanen, 31 Jamar Wilson, 33 Erik Murphy. 

Finnland 83:79 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert