Nýliðarnir styrkja sig

Tómas Orri Hjálmarsson er genginn til liðs við ÍR.
Tómas Orri Hjálmarsson er genginn til liðs við ÍR. Ljósmynd/ÍR

Körfuknattleiksmaðurinn Tómas Orri Hjálmarsson hefur samið við ÍR um að leika með liðinu á næsta tímabili. ÍR verður nýliði í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Tómas Orri kemur frá Haukum þar sem hann lék á síðasta tímabili auk þess að vera lánaður til Sindra, þar sem hann er uppalinn.

Hann er 21 árs gamall og var með rúm 13 stig og fimm fráköst í tíu leikjum fyrir Sindra í 1. deildinni á síðasta tímabili auk þess að vera með 46 prósenta skotnýtingu í þriggja stiga skotum.

„Ég er mjög ánægður með að Tómas hafi skrifað undir og hlakka til að sjá hann í alvöru hlutverki í Subway-deildinni.

Leikstíll hans smellur vel í okkar hugmyndafræði og ég er sannfærður um að hann mun ná að stimpla sig vel inn í liðið,“ sagði Ísak Wíum, þjálfari ÍR, í tilkynningu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert