Haukar einir á toppnum

Tinna Guðrún Alexandersdóttir með boltann í kvöld.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

Haukar tylltu sér á topp úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik með því að leggja nýliða Aþenu, 91:76, í Ólafssal á Ásvöllum í annarri umferð deildarinnar í kvöld.

Haukar eru eina liðið sem hefur unnið báða leiki sína í deildinni til þessa og er með fjögur stig í efsta sæti deildarinnar.

Haukar gáfu tóninn strax í fyrsta leikhluta og voru með 14 stiga forystu, 25:11, að honum loknum. Aþena beit hins vegar aðeins frá sér í öðrum leikhluta og lagaði stöðuna sem var 44:35 í hálfleik.

Heimakonur héldu sjó í þriðja leikhluta og voru 11 stigum yfir, 62:51, að honum loknum.

Aþena mætti hins vegar dýrvitlaus til leiks í fjórða og síðasta leikhluta og var búin að jafna metin í 64:64 þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar af honum.

Stuttu síðar komst Aþena yfir, 66:69, áður en Haukar svöruðu með því að skora næstu tíustig og náðu þannig sjö stiga forystu.

Reyndist það gestunum um megn að koma aftur til baka og höfðu Haukar að lokum 15 stiga sigur.

Stigahæst í leiknum var Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 24 stig fyrir Hauka. Tók hún auk þess sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Lore Devos var skammt undan með 21 stig og sex fráköst.

Stigahæst hjá Aþenu var Ajulu Obur Thatha með 21 stig og 14 fráköst.

Haukar - Aþena 91:76

Ásvellir, Bónus deild kvenna, 09. október 2024.

Gangur leiksins:: 7:0, 14:5, 19:7, 25:11, 31:18, 35:20, 38:31, 44:35, 48:40, 52:42, 57:47, 62:51, 64:64, 68:69, 82:72, 91:76.

Haukar: Tinna Guðrún Alexandersdóttir 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, Lore Devos 21/6 fráköst, Diamond Alexis Battles 15/6 stolnir, Þóra Kristín Jónsdóttir 13/6 fráköst/7 stoðsendingar, Eva Margrét Kristjánsdóttir 5/8 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 5, Lovísa Björt Henningsdóttir 4, Rósa Björk Pétursdóttir 2/4 fráköst, Agnes Jónudóttir 2.

Fráköst: 23 í vörn, 13 í sókn.

Aþena: Ajulu Obur Thatha 21/14 fráköst, Dzana Crnac 17, Ása Lind Wolfram 10/8 fráköst, Jade Edwards 10, Barbara Ola Zienieweska 8/11 fráköst, Hanna Þráinsdóttir 5/4 fráköst, Elektra Mjöll Kubrzeniecka 5.

Fráköst: 29 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Jakob Árni Ísleifsson, Sigurbaldur Frimannsson, Dominik Zielinski.

Áhorfendur: 188

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert