„Búinn að vera eins og trúður í eitt og hálft ár“

DeAndre Kane, leikmaður Grindavíkur með boltann í kvöld. Adam Eiður …
DeAndre Kane, leikmaður Grindavíkur með boltann í kvöld. Adam Eiður Ásgeirsson er til varnar. mbl.is/Arnþór

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var eðlilega nokkuð fúll eftir stórt tap gegn Grindavík í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í Smáranum í kvöld, 113:84.

„Þetta var bara ekki hérna hjá okkur í dag. Við vorum flatir, ekki tengdir og ekki samstilltir. Planið sem ég set upp og undirbúningurinn hrundi og það kom aldrei neinn neisti. Við bara skíttöpuðum þessum leik og vorum slakir, það hefur gerst áður og við höfum komið til baka þannig að við ætlum ekkert að hafa áhyggjur af þessu.

Við getum farið yfir þetta og komið okkur aftur á það sem við höfum verið að gera vel. Við getum tekið eitthvað gott úr öllu, það er meira að segja hægt að taka eitthvað gott úr því að verða gjaldþrota því það er alltaf eitthvað sem maður lærir. Við bara töpuðum í dag og þannig er það.“

Aðspurður hvort það verði erfitt að gíra leikmenn upp í næsta leik eftir að hafa fengið svona skell en Viðar segir þetta ekki snúast bara um það.

„Ég hélt að það yrði ekkert mál að gíra mannskapinn upp fyrir þennan leik en þetta er ekkert bara spurning um að gíra sig upp. Stundum er þetta einhvern veginn bara ekki þarna, við byrjuðum mótið vel en svo er þetta bara þannig að við eigum góða leiki og svo eigum við slaka. Það eru búnir þrír leikir, við erum búnir að vinna tvo og tapa einum. Þú ert ekkert að fara að missa þig í neitt forsíðudæmi í Mogganum hérna, þetta er bara svona. Við eigum Njarðvík heima í næsta leik, vonandi mætum við bara af krafti og spilum til að vinna hann.“

Það urðu mikil læti í hálfleik, eftir að liðin komu aftur út úr búningsherbergjunum til að hita upp. DeAndre Kane, leikmaður Grindavíkur, og Courvoisier McCauley, leikmaður Hattar, lentu þá saman og allt sauð upp úr. Nánast allir leikmenn beggja liða voru mættir að miðjuhringnum og þurfti gæslufólk og starfsfólk á ritaraborði að stíga inn í.

„Ég sá ekki hvað gerðist, ég var að koma inn á svipuðum tíma og dómararnir. Ég ætla bara rétt að vona að körfuknattleikssambandið fari í að skoða myndbönd af þessu. Mér skilst að allir hafi séð þetta hérna, að Kane hafi labbað að Bandaríkjamanninum hjá mér, ýtt eitthvað í andlitið á honum og verið með einhverja stæla.

Það er löngu tímabært að það sé tekið á þessum manni. Hann er búinn að vera hérna eins og trúður í eitt og hálft ár eða hvað það er og það þarf bara að standa í lappirnar á móti þessu. Þetta er bara djöfulsins meðvirkni að hleypa þessu upp í svona.“

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, á hliðarlínunni í kvöld.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert