Stjarnan rústaði Þór Þorlákshöfn með 42 stigum, 124:82, í úrvalsdeild karla í körfubolta í Garðabænum í dag.
Stjörnumenn eru með 14 stig í öðru sæti deildarinnar eftir átta leiki, jafnmörg og topplið Tindastóls. Þór er með átta stig í áttunda sæti.
Stjarnan var sex stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 31:25, en annar leikhluti liðsins var magnaður. Þá skoruðu Stjörnumenn 40 stig gegn 15 og voru 31 stigi yfir í hálfleik, 71:40.
Garðbæingar litu ekki til baka og juku forskot sitt í þriðja og fjórða leikhluta og unnu að lokum 42 stiga sigur.
Orri Gunnarsson var stigahæstur í Stjörnuliðinu með 26 stig en hann tók einnig fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson skoraði þá tólf stig, tók fimm fráköst og gaf tólf stoðsendingar.
Hjá Þór skoraði Marreon Jackson mest eða 25 stig.