Gamla ljósmyndin: Herbergisfélagi Larry Bird

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Einn þeirra erlendu íþróttamanna sem setti svip sinn á boltagreinarnar hérlendis á árum áður er miðherjinn Ívar Webster sem kom til Íslands frá Bandaríkjunum árið 1979. 

Ívar tjaldaði ekki til einnar nætur og lék með íslenskum liðum í tvo áratugi með tveggja ára hléi. Kom hann víða við og lék með KR, Skallagrími, Haukum, Þór Akureyri, ÚÍA, ÍR, Breiðabliki og Val auk þess að þjálfara Skallagrím, Þór og ÚÍA. Hjá Haukum var hann aðstoðarþjálfari og síðar aðstoðarþjálfari hjá Wilmington College í Ohio. 

Hann heitir DeCarsta Webster en bætti nafninu Ívar við fyrir framan eftir að hann hlaut íslenskan ríkisborgararétt og hérlendis gekk hann iðulega undir nafninu Ívar Webster. 

Ívar kemur frá mikilli körfuboltaborg í Bandaríkjunum, Philadelphiu, en fór til Miami í háskóla. Hann skipti hins vegar um skóla eftir einn vetur hjá Miami Dade og lék með Indiana State frá 1975 til 1978. Sem er stórmerkilegt því þar lék hann með Larry Bird og voru þeir raunar herbergisfélagar um tíma ef marka má Wikipedia.  Ári síðar eða 1979 leiddi Bird liðið alla leið í úrslitaleikinn í NCAA gegn Magic Johnson og Michigan State eins og frægt varð. 

Á meðfylgjandi mynd er Ívar í leik með Haukum gegn Njarðvík um miðjan níunda áratuginn en á þeim tíma öttu þessi lið reglulega kappi í viðureignum sem höfðu mikið að segja um útkomu Íslandsmótsins eða bikarkeppninnar. Myndin er úr myndasafni Morgunblaðsins. Á myndinni eru einnig samherjar hans Henning Henningsson (5) og Kristinn Kristinsson en einnig Njarðvíkingurinn Helgi Rafnsson. 

Með Haukum varð Ívar tvívegis bikarmeistari 1985 og 1986 og einu sinni Íslandsmeistari 1988. Voru það fyrstu sigrar karlaliðs Hauka í þessum keppnum. Ívar skoraði 26 og 28 stig í bikarúrslitaleikjunum þar sem andstæðingarnir voru KR og Njarðvík. 

Um tíma voru erlendir leikmenn ekki leyfðir í íslensku deildinni og þegar Ívar hafði fengið ríkisborgararétt varð hann enn verðmætari leikmaður en áður enda 211 cm á hæð. Mannlífið var fábreyttara á Íslandi á fyrstu árum Ívars hérlendis og auðvelt að sjá fyrir sér að hann hafi vakið athygli á götum úti verandi dökkur á hörund og hávaxnari en gengur og gerist. Þess má geta að Ívar var fyrsti svarti leikmaðurinn sem lék með íslenska landsliðinu. 

Netmiðillinn Karfan.is fékk Ívar til að líta um öxl fyrir áratug síðan og spurði hann út í íslenska leikmenn: 

„Minn uppáhalds samherji var Pálmar Sigurðsson sem var frábær skytta og enn betri leikstjórnandi en annars voru allir þeir sem ég spilaði með Haukum mér mjög sérstakir. Þetta var frábært lið og frábærir gaurar.  Mínir erfiðustu mótherjar voru að sjálfsögðu Pétur Guðmundsson, Teitur Örlygsson ég man vel eftir honum og bróðir hans Sturla Örlygsson. Ekkert voðalega hár í loftinu en virkilega sterkur.  Jón Kr Gíslason var frábær bakvörður og Valur Ingimundarson einstök skytta sem og Guðni Guðnason.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka