Brotist var inn á heimili slóvenska körfuboltamannsins Luka Doncic sem leikur með Dallas Mavericks í NBA-deildinni.
Innbrotið átti sér stað á föstudaginn þegar enginn var heima. Þjófarnir stálu skartgripum að verðmæti þrjátíu þúsund Bandaríkjadala eða um 4,2 milljónum íslenskra króna.
Doncic er sjötta íþróttastjarnan í Bandaríkjunum sem brotist hefur verið inn á heimili hjá síðan í október. Innbrot hafa átt sér stað á heimilum stórstjarnanna Patrick Mahomes, Joe Burrow, Travis Kelce, Bobby Portis og Mike Conley.
Doncic var ekki með Dallas-liðinu í nótt þegar liðið mátti þola naumt tap gegn Portland Trail Blazers, 126:122. Slóveninn meiddist á kálfa í leik á jóladag gegn Minnesota Timberwolves og verður frá keppni í rúman mánuð.