Ekkert eðlilega stoltur

Njarðvíkingurinn Evans Ganapamo sækir að körfu Þórs í leiknum í …
Njarðvíkingurinn Evans Ganapamo sækir að körfu Þórs í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sig.

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum ánægður með tveggja stiga sigur í háspennuleik gegn Þór Þorlákshöfn í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Sigurinn hefði getað endað hjá báðum liðum en við spurðum Rúnar Inga að því hvað hafi valdið því að sigurinn endaði hjá Njarðvíkingum.

„Okkur tókst að ná ákveðinni stjórn á leiknum í seinni hálfleik og náum tvisvar sinnum 10 stiga forskoti sem á endanum hjálpar okkur að vera réttu megin við línuna í lokin.

Við þurfum samt að klára leikina betur. Valmöguleiki A og B sóknarlega voru báðir hérna í rosalega flottum Macron-peysum á bekknum og aðrir menn með boltann í höndunum og gera mjög vel en á köflum erum við ekki að taka nægilega góðar ákvarðanir gegn skormaskínuliði eins og Þór Þ. Þeir eru alltaf svo hættulegir og eru alltaf að hóta. Þannig að þú verður að nota tækifærin vel og vera skynsamur sóknarlega til að vinna svona körfuboltaleik.“

Rúnar Ingi Erlingsson
Rúnar Ingi Erlingsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það hefur gerst í vetur að Njarðvíkurliðið gefi eftir í lok svona spennuleikja. Það gerist ekki í kvöld. Hvernig metur þú það?

„Já, ég var mjög ánægður með liðið í kvöld og á þessum krítísku tímapunktum fyrir utan eitt skot hérna í lokin hjá nýja manninum mínum þegar það voru kannski 20-30 sekúndur eftir sem mér fannst ekki skynsamlegt og ég þarf að ræða það við hann.

Aðrar ákvarðanatökur eru heilt yfir góðar og við erum að sýna það að við erum ekki að missa haus, láta valta yfir okkur eða missa trúna og fara út úr þeim hlutum sem við ætlum að gera. Það er lykilatriði ef við ætlum að ná árangri. Þetta er ekki erfiðasta áskorunin sem við erum að fá hérna 2. janúar. Þær munu vera stærri og erfiðari og þá er mikill lærdómur að geta horft í leik eins og þennan sem við vorum að klára.“

Njarðvíkingar spila án Dwayne Lautier-Ogunleye og Khalil Shabazz. Það hlýtur að vera styrkleikamerki að knýja fram sigur án þeirra, ekki satt?

Rúnar Ingi Erlingsson
Rúnar Ingi Erlingsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef þú þekkir einhvern á Íslandi sem hefði trúað því að við værum að vinna leik í Bónusdeildinni án Dwayne Lautier-Ogunleye og Khalil Shabazz þá máttu láta mig vita því ég held að það sé erfitt að finna þann mann.

Ég er ekkert eðlilega stoltur af strákunum mínum og að þeir séu að taka þessum áskorunum sem koma upp aftur og aftur á kassann. Þeir gera bara það sem ég er að biðja þá um að gera og sumir eru að spila mun stærri hlutverk en þeir ættu að vera að gera.

Veigar Páll og Brynjólfur stjórnuðu þessu eins og herforingjar hér í dag í fjarveru Shabazz og þetta eru bara forréttindi fyrir mig að vera með fullt af leikmönnum sem ég get treyst á.“

Er langt í að þessir leikmenn komi til baka í liðið?

„Ég vona að Shabazz verði með á móti Álftanesi en Dwayne kemur ekki fyrr en í febrúar eða mars.“

Næsti leikur er gegn Álftanesi sem þið unnuð hér í opnunarleik á nýjum heimavelli Njarðvíkur. Munuð þið sækja tvö stig á Álftanes?

„Það verður bara svipaður leikur og í kvöld. Við þurfum að taka eitthvað frá þeim og gefa eitthvað til baka. Við þurfum bara að vera klókir og reyna finna eitthvað forskot á þá,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert