Njarðvíkingar unnu Þór í háspennuleik

Brynjar Kári Gunnarsson úr Njarðvík með boltann í kvöld.
Brynjar Kári Gunnarsson úr Njarðvík með boltann í kvöld. mbl.is/Skúli

Njarðvík og Þór Þ. áttust við í 12. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkinga, 106:104. Leikið var á heimavelli Njarðvíkur. 

Eftir leikinn eru Njarðvíkingar með 14 stig og í þriðja sæti en Þór Þ. er áfram með 12 stig í fjögurra liða pakka þar fyrir neðan.  

Gestirnir í Þór Þorlákshöfn mættu miklu ferskari til leiks í kvöld og komust í 7:0 áður en Njarðvíkingar settu sín fyrstu stig. Njarðvíkingar unnu sig síðan hægt og rólega inn í leikinn og náðu að jafna leikinn í stöðunni 20:20 með tveggja stiga körfu frá Brynjari Kára Gunnarssyni. 

Þegar fyrsti leikhluti var að klárast komust Þórsarar yfir 23:22 en Veigar Páll Alexandersson setti þá flautuþrist og kom Njarðvíkingum yfir 25:23 og var það staðan eftir fyrsta leikhluta.

Njarðvíkingar byrjuðu annan leikhluta betur og náðu 5 stiga forskoti í stöðunni 28:23. Þórsarar jöfnuðu í 28:28 áður en Njarðvíkingar náðu aftur 5 stiga forskoti í stöðunni 36:31.

Þórsarar gáfust ekki upp og náðu frábærum kafla í öðrum leikhluta þegar þeir náðu 7 stiga forskoti í stöðunni 50:43. Þá tók Rúnar Ingi þjálfari Njarðvíkur leikhlé.

Leikhléið hefur borgað sig því Njarðvíkingar unnu sig aftur inn í leikinn og náðu að lokum að jafna leikinn í stöðunni 53:53 og þannig stóðu leikar í hálfleik. 

Þriðji leikhluti var ansi jafn framan af. Þór Þ. skoraði fyrstu stig seinni hálfleiks en Njarðvík jafnaði strax í 55:55. Þá settu Þórsarar þrist en Njarðvíkingar gerðu slíkt hið sama og jöfnuðu í 58:58. 

Njarðvíkingar náðu að lokum 4 stiga forskoti í stöðunni 72:68 og síðan 9 stiga forskoti í stöðunni 79:70. Þá tóku Þórsarar leikhlé.

Njarðvíkingar náðu mest 12 stiga forskoti í þriðja leikhluta en Þórsarar náðu að minnka muninn niður í 9 stig fyrir fjórða leikhlutann. Staðan 88:79, Njarðvíkingum í vil, eftir þriðja leikhlutann.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi. Jordan Semple byrjaði á því að stela boltanum og minnka muninn niður í 7 stig í stöðunni 88:81. Njarðvíkingar náðu upp 10 stiga mun en voru á sama tíma komnir í villuvandræði þar sem Dominykas Milka og Evans Raven Ganapamo voru báðir einni villu frá útilokun.

Þórsarar voru alls ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn niður í þrjú stig í stöðunni 93:90. Njarðvíkingar juku muninn í 5 stig í stöðunni 95:90 og unnu síðan boltann. Isaiah Cotton náði í kjölfarið að setja tvö stig og fékk að auki vítaskot sem hann klikkaði á. Staðan 97:90 fyrir Njarðvík en leiknum hvergi nærri lokið, enda 4:59 eftir á klukkunni.

Njarðvíkingar náðu aftur 10 stiga forskoti í stöðunni 100:90 áður en Þórsarar minnkuðu muninn í 8 stig í stöðunni 100:92 og 3 mínútur og 45 sekúndur voru eftir af leiknum.

Þórsarar gáfust aldrei upp og minnkuðu muninn í 101:100 þegar 1:58 var eftir af leiknum með tveimur þriggja stiga körfum í röð frá Nikolas Tomsick. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur sá þann kost einan að taka leikhlé í kjölfarið enda stórslys í vændum eftir að hafa verið 10 stigum yfir.

Njarðvíkingar klikkuðu á næstu sókn og Jordan Semple kom Þór Þorlákshöfn yfir í leiknum í stöðunni 102:101. Njarðvíkingar náðu að setja næstu 4 stig í leiknum og komust þremur stigum yfir í stöðunni 105:102 og Lárus þjálfari Þórsara tók leikhlé þegar sléttar 38 sekúndur voru eftir af leiknum.

Þórsarar minnkuðu muninn niður í 105:104. Njarðvíkingar skunduðu í sókn og brutu Þórsarar á Veigari sem fór á vítapunktinn og setti niður annað af tveimur vítaskotum sínum. Staðan 106:104 og Þórsarar höfðu 7,6 sekúndur til að vinna leikinn.

Það tókst ekki og rúllaði lokaskot Þórs upp úr körfunni frá Jordan Semple og lokatölur í kvöld 106:104 sigur Njarðvíkinga.

Evans Raven Ganapamo skoraði 31 stig fyrir Njarðvíkinga. Dominykas Milka var með 9 fráköst.

Í liði Þórs Þorlákshafnar var Nikolas Tomsick með 32 stig og Jordan Semple með 11 fráköst.

Njarðvík - Þór Þ. 106:104

IceMar-höllin, Bónus deild karla, 02. janúar 2025.

Gangur leiksins:: 0:4, 7:14, 17:20, 22:23, 34:31, 40:41, 45:50, 53:53, 62:63, 75:70, 85:76, 88:79, 93:85, 95:90, 101:97, 106:104, 106:104, 106:104.

Njarðvík: Evans Raven Ganapamo 31, Veigar Páll Alexandersson 28/7 stoðsendingar, Mario Matasovic 15/8 fráköst, Isaiah Coddon 11, Dominykas Milka 10/9 fráköst/6 stoðsendingar, Brynjar Kári Gunnarsson 6, Snjólfur Marel Stefánsson 5.

Fráköst: 21 í vörn, 5 í sókn.

Þór Þ.: Nikolas Tomsick 32/6 stoðsendingar, Jordan Semple 23/11 fráköst, Mustapha Jahhad Heron 23, Ólafur Björn Gunnlaugsson 11/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 6/6 fráköst, Justas Tamulis 6/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3.

Fráköst: 18 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson, Jón Þór Eyþórsson.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Njarðvík 106:104 Þór Þ. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert