Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, var að vonum ánægður með sigur liðs síns gegn Stjörnunni í tólftu umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta á Hlíðarenda í dag.
Þetta var aðeins annað tap toppliðs Stjörnunnar á tímabilinu en Valsmenn eru nú komnir með tíu stig og eru í níunda sæti deildarinnar.
Valsliðið sneri leiknum sér í vil í þriðja leikhluta en þá datt Ægir Þór Steinarsson lykilmaður Stjörnunnar út.
„Þetta var hörkuleikur. Tvö lið sem hafa tekist mikið á síðustu ár. Menn vildu virkilega vinna leikinn.
Góðir og slæmir kaflar hjá okkur. Mér fannst við binda vörnina vel í seinni hálfleik.
Við löguðum ákveðna hluti í varnarleik okkar. Svo breytist leikurinn þegar Ægir dettur út. Mér fannst við leysa þá hluti sem þeir voru að gera. Þegar við náum að tengja saman vörn og sókn þá er allt betra,“ sagði Finnur Freyr í samtali við mbl.is.
Valsmenn hafa átt í erfiðleikum á tímabilinu en eru nú komnir úr fallsæti. Þeir hefja þó nýtt ár á nýjum sigri.
„Við erum mjög ósáttir við frammistöðuna sem af er tímabils. Við tökum þessum sigri fagnandi en vitum að það er ekkert komið, förum ekki hátt upp. Nú verðum við að gera okkar besta til að klifra upp töfluna,“ hélt Finnur Freyr áfram.
Næst mætir Valur Þór í hörkuleik en Þórsarar eru með tveimur stigum meira en Valsmenn.
„Þór er með gríðarlega vel mannað lið sem er búið að vera að bæta vel við sig. Menn með reynslu af Íslandi komnir inn. Ég býst við alvöru leik í Þorlákshöfn,“ bætti Finnur Freyr við í samtali við mbl.is.