Færi aldrei að benda á dómarana

Einar Árni Jóhannsson á hliðarlínunni í kvöld.
Einar Árni Jóhannsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Skúli

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum svekktur með 7 stiga tap Njarðvíkur gegn Haukum í Úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Spurður út í það hvað hafi á endanum ráðið úrslitum sagði Einar Árni þetta:

„Það eru held ég vond mistök sem við gerum á köflum. Það eru fjögur til fimm skipti þar sem við erum undir hálfri pressu og við flýtum okkur að losa boltann og hann endar út af.

Það koma líka tímapunktar í öðrum og þriðja leikhluta þar sem við klikkum á frábærum fárum sem er allt í góðu en við fáum stig í bakið. Þetta eru svona helstu þættirnir sem snúa að mínu liði sem við þurfum að laga.“

Ef við förum aðeins yfir skotnýtinguna. Njarðvíkurkonur fengu gríðarlega mörg tækifæri til að vinna sig af alvöru inn í leikinn en klikkuðu alltaf á stórum vendipunktum. Kanntu skýringar á því?

„Það er auðvelt að ætla að vera sérfræðingur eftir á en auðvitað koma dagar þar sem þetta dettur og stundum ekki. Ég er samt ánægður með að þær séu ekki að taka vond þriggja stiga skot þó að þau fari ekki ofan í. Ég þarf bara að skoða það og ef það er staðan þá þurfum við bara að æfa það betur. Það sem er hins vegar svekkjandi er að Haukar fá alltof mörg layup stig eftir að við klikkum og óþarflega mörg stig sem Haukar þurfa lítið að hafa fyrir.“

Ef við tölum um varnarleik Njarðvíkur þá virtist það vera þannig í byrjun fyrri hálfleiks og svo aftur í byrjun seinni hálfleiks að Haukakonur leggja grunninn að góðu forskoti sem síðan á endanum kannski siglir þessum tveimur stigum í Hafnarfjörð.

„Ég myndi segja að þetta snúist ekki um vörn á hálfum velli. Það voru nokkrar þriggja stiga körfur sem þær skora þar sem við erum ekki að fylgja leikplani og leyfum ákveðnum leikmönnum sem við vildum ekki að tækju þriggja stiga skot að taka slík skot og það gaf þeim a.m.k. þrjár slíkar körfur í fyrri hálfleik. En við lögum það í seinni hálfleik og þá eru það óþarflega margar layup körfur sem við fáum í bakið eftir misheppnaðar sóknir og það þarf að laga.

En þær hittu gríðarlega vel í kvöld og líklega með mun betri skotnýtingu en við og bara hrós á Hauka fyrir það. Það er alveg hægt að einfalda það og segja að þar liggi munurinn.“

Við förum ekki frá þessum leik öðruvísi en að ræða dómgæsluna. Það voru nokkur atriði sem má örugglega endurskoða en það sást líka í kvöld að dómgæslan fór mjög í taugarnar á þér. Hvað hefur að segja um það?

„Ég hef ekki lagt í vana minn að tala um dómgæsluna og ég færi aldrei að benda á þá. Við töpuðum þessum leik. Þeir voru örugglega að gera sitt besta. Þeir munu örugglega fara yfir þennan leik alveg eins og við. Ég verð að fókusa á mig og mitt lið og treysta á að þeir séu að gera sitt besta.

Það voru fullt af hlutum sem okkur fannst þeir missa af og kontakturinn var tekinn meira öðrum megin en það geta allir haft sína skoðun á því en við bara fókusum á okkur og hvað við getum gert betur,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert