Trae Young reyndist hetja Atlanta Hawks þegar hann skoraði magnaða flautukörfu með skoti fyrir aftan miðju og tryggði liðinu þannig útisigur á Utah Jazz, 124:121, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Collin Sexton virtist vera að tryggja Utah framlengingu þegar hann jafnaði metin í 121:121 með laglegri þriggja stiga körfu er fjórar sekúndur voru eftir á leikklukkunni.
Young var þó ekki á því að fara með Atlanta í framlengingu og reyndi skot frá eigin vallarhelmingi sem fór ofan í körfuna skömmu áður en leiktíminn var úti.
Dagurinn var góður hjá Young sem var með tröllatvennu auk þess að skora þessa ótrúlegu flautukörfu. Skoraði hann 24 stig og bætti auk þess við 20 stoðsendingum, en sá stoðsendingafjöldi sést ekki oft.
Stigahæstur í leiknum var Finninn öflugi Lauri Markkanen með 35 stig fyrir Utah.
Devin Booker lék á als oddi hjá Phoenix Suns en tókst þó ekki að koma í veg fyrir tap fyrir Charlotte Hornets, 115:104.
Booker skoraði 39 stig, tók sex fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Gamla brýnið Kevin Durant bætti við 26 stigum og sex fráköstum.
LaMelo Ball fór fyrir Charlotte með því að skora 32 stig, taka tíu fráköst, gefa sjö stoðsendingar og stela boltanum fjórum sinnum.
Önnur úrslit:
Washington - Houston 112:135
Dallas - LA Lakers 118:97
New Orleans - Minnesota 97:104
Denver - Boston 106:118
Golden State - Miami 98:114