Tvö bestu lið NBA-deildarinnar í körfuknattleik á tímabilinu, Oklahoma City Thunder og Cleveland Cavaliers, mætast í athyglisverðum slag í nótt.
Bæði lið hafa átt frábæru gengi að fagna þar sem Cleveland hefur unnið 31 af 35 leikjum sínum til þessa og Oklahoma City hefur unnið 30 af 35 leikjum sínum.
Er það aðeins í annað skipti í sögu deildarinnar sem fleiri en eitt lið hefur unnið 30 eða fleiri af fyrstu 35 leikjum sínum. Síðast gerðist það tímabilið 1971-1972 þegar LA Lakers og Milwaukee Bucks áorkuðu því.
Cleveland er á toppnum í Austurdeildinni og Oklahoma City er á toppnum í Vesturdeildinni. Verður þetta í fyrsta sinn sem lið úr hvorri deild fyrir sig mæta hvoru öðru með 85 prósenta sigurhlutfall eða hærra.
Oklahoma City hefur unnið alla 11 leiki sína gegn liðum úr Austurdeildinni og Cleveland hefur unnið alla tíu leiki sína gegn liðum úr Vesturdeildinni.
Oklahoma City hefur unnið 15 leiki í röð og Cleveland hefur unnið tíu leiki í röð. Er þetta í fyrsta sinn í sögu NBA-deildarinnar sem lið sem hafa unnið þetta marga leiki í röð mætast og aðeins í þriðja skiptið sem tvö lið sem hafa unnið tíu eða fleiri leiki í röð mætast.
Samkvæmt tölfræði NBA-deildarinnar er Cleveland besta sóknarlið deildarinnar og Oklahoma City besta varnarlið deildarinnar.
Eitthvað mun hins vegar láta undan í nótt en leikurinn hefst á miðnætti.