Cleveland Cavaliers, topplið Austurdeildarinnar, vann sterkan sigur á Oklahoma City Thunder, toppliði Vesturdeildarinnar, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Lokatölur urðu 129:122.
Cleveland hefur unnið 32 af fyrstu 36 leikjum sínum og Oklahoma City er áfram með 30 sigra í sínum 36 leikjum. Cleveland er aðeins sjöunda liðið í sögu NBA-deildarinnar sem hefur tímabil á því að vinna 32 eða fleiri í fyrstu 36 leikjum sínum.
Í nótt var það Jarrett Allen sem fór fyrir Cleveland er hann skoraði 25 stig, tók 11 fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal þremur boltum. Evan Mobley bætti við 21 stigi, tíu fráköstum og sjö stoðsendingum.
Hjá Oklahoma City var Shai Gilgeous-Alexander atkvæðamestur sem fyrr. Hann skoraði 31 stig, tók fimm fráköst, stal boltanum þrisvar sinnum og varði tvö skot. Jalen Williams var með 25 stig, fimm fráköst, níu stoðsendingar og þrjá stolna bolta.
Gríska undrið Giannis Antetokounmpo átti stórleik fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið vann San Antonio Spurs, 121:105.
Skoraði hann 25 stig, tók 16 fráköst og gaf átta stoðsendingar ásamt því að verja eitt skot.
Keldon Johnson var stigahæstur hjá San Antonio með 24 stig og 11 fráköst. Franska ungstirnið Victor Wembanyama hafði nokkuð hægt um sig en náði þrátt fyrir það tvöfaldri tvennu er hann skoraði tíu stig og tók tíu fráköst.
Önnur úrslit:
Indiana - Chicago 129:113
Philadelphia - Washington 109:103
New York - Toronto 112:98
Brooklyn - Detroit 98:113
New Orleans - Portland 100:119
Denver - LA Clippers 126:103