Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, lék á ný með Alba Berlín í kvöld þegar liðið sótti Fenerbahce heim til Istanbul í Tyrklandi í Evrópudeildinni.
Martin, sem er fyrirliði Alba, hefur verið tæpur vegna meiðsla í hásin að undanförnu og ekki spilað alla leiki Berlínarliðsins, en hann var með í tæpar 13 mínútur í kvöld.
Á þeim tíma skoraði hann sex stig og átti þrjár stoðsendingar en Fenerbahce vann leikinn 90:73.
Tímabilið hefur verið erfitt hjá Alba sem hefur aðeins unnið þrjá leiki af 20 í Evrópudeildinni og er neðst af átján liðum þar. Þá hefur liðið líka verið í basli í þýsku 1. deildinni.