Þetta er bara leðjuslagur

Haukur Helgi Pálsson hjá Álftanesi með boltann í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson hjá Álftanesi með boltann í kvöld. mbl.is/Karítas

Álftanes mátti þola sárt tap gegn Njarðvík á heimavelli sínum í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta en leikurinn var sannkallaður háspennuleikur þar sem sigurinn gat endað hvoru megin sem er.

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var að vonum svekktur með niðurstöðuna þegar hann var spurður að því hvað hann teldi hafa skilið liðin að í kvöld.

„Akkúrat núna, þegar það eru 14 mínútur frá lokum leiks, myndi ég segja að fjöldi skota hafi verið munurinn. Liðin taka jafn mörg 2 stiga skot. Njarðvíkingar tóku fleiri þrista og fleiri víti en við. Það þýðir að þeir voru oftar í sókn en við. Það útskýrist á því að þeir tóku fleiri fráköst en við. Það munar 20 fráköstum á liðunum í frákastabaráttunni.

Þeir skora 10 stig eftir sóknarfráköst en við 2 stig. Þar munar 8 stigum. Svona strax eftir leik myndi ég segja að það væri hluti af skýringunni en svo þarf maður bara að horfa á þetta aftur og greina þetta betur.

mbl.is/Karítas

Leikurinn helst í frekar lágu stigaskori sem kannski það sem Álftanes reynir að leggja upp með, ekki satt?

„Jú jú, við reynum bara fyrst og fremst að spila góðan varnarleik og mér fannst takturinn vera með okkur stóran hluta leiksins. En síðan voru það bara nokkur atriði sem völdu stórum viðsnúningum þeim í hag. Sem dæmi þegar Mario stelur boltanum og skorar, Shabazz setur þrist í hraðaupphlaupi og fleira.“

Í fjórða leikhluta tekur Álftanes 6 vítaskot en setur tvö niður og mér taldist til að Álftanes hefði getað verið að jafna leikinn hefðu þeir hitt úr bara þessum vítaskotum sem komu öll á krítískum tímapunktum í leiknum. Það hlýtur að vera dýrt?

Kjartan Atli Kjartansson
Kjartan Atli Kjartansson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í vítaskotum er það bara þannig að þú ferð á línuna og það er bara þú á móti körfunni. Þetta er bara lögmál meðaltalsins. Það eina sem þú getur gert er að taka næsta víti og þú getur ekki hugsað ef og hefði. Ég myndi frekar vilja hrósa mönnum fyrir að komast á línuna.“

Það sem ég er að pæla með þessu er hvort menn hafi verið með of þandar taugar í lok leiksins?

„Ef þú horfir á allar deildir í heiminum þá er stigaskorið í fjórða leikhluta yfirleitt minnst og sérstaklega síðustu 5 mínúturnar. Þá er mesta einbeitingin að fara í vörnina. Það er bara erfiðast að vera til þá. Mín reynsla segir mér að þú ert bara í momentinu og ert ekkert að pæla í einhverjum ytri aðstæðum. Þú ert bara að taka vítið þitt og fara í gegnum rútínuna þína.“

Hvað hefðir þú viljað sjá þína menn gera betur í kvöld, sem þarf að bæta fyrir næsta leik?

„Mér fannst við koma svolítið flatir út í þennan leik og orkustigið hjá báðum liðum var frekar lágt. Við þurfum að laga þetta bara strax. Það eru allir að vinna alla í þessari deild og þetta er bara leðjuslagur. Þetta er háspennudeild og þetta er bara þannig að einn sigur til að frá og það er allt gjörbreytt á töflunni.

Við þurfum bara að halda stefnunni og hafa trú á verkefninu. Við höfum sýnt það að við getum unnið öll lið í þessari deild,“ sagði Kjartan Atli í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert