Þetta er samt alltaf Keflavík

Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson á varamannabekknum í kvöld.
Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson á varamannabekknum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Sigurður Ingimundarson stýrði sínum fyrsta leik í langan tíma sem þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta í kvöld þegar Keflavíkurkonur unnu dramatískan sigur á Grindavík, 88:82.

Spurður hvað skóp sigurinn hjá hans liði í kvöld sagði Sigurður þetta:

„Þetta var skemmtilegur leikur og gott Grindavíkurlið sem var mun betra en staða þeirra í deildinni segir. Við spiluðum mjög slæma vörn í fyrsta leikhluta en síðan batnaði hún með hverjum leikhlutanum og það skóp á endanum sigurinn.“

Það leit út eins og Grindavík væri að klára þennan leik í fjórða leikhluta og benti allt til þess. Síðan koma tveir þristar frá Önnu Ingunni Svansdóttur og Jasmine í kjölfarið. Þá er allt jafnt og Keflavík klárar síðan leikinn. Hvað breyttist?

„Júlía innsiglar þetta með þriggja stiga körfu. Við vorum búin að hitta rosalega illa í seinni hálfleik, bæði í þristum og layup-um og ekkert fór ofan í. Síðan fóru síðustu fjögur skotin ofan í og þetta var karaktersigur fyrir okkar lið.

Þetta hefði getað fallið báðum megin og ég er ekkert að fara sjá þetta Grindavíkurlið tapa neitt mörgum leikjum í viðbót í vetur,“ sagði hann.

Var þetta mikilvægur sigur í toppbaráttunni?

„Já mjög mikilvægur og ég er bara mjög ánægður með þennan sigur,“ sagði Sigurður.

Þinn fyrsti leikur eftir góða pásu frá þjálfun. Hvernig er að vera kominn aftur?

„Það er bara skemmtilegt. Alltaf gaman hérna. Þetta var óvænt og við svo sem bara nýkomnir og lítið sem við höfum gert,“ sagði hann.

Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Keflavíkur, sækir að körfu Grindavíkur í …
Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Keflavíkur, sækir að körfu Grindavíkur í kvöld. Jasmine Dickey og Isabella Ósk Sigurðardóttir fylgjast með. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Markmiðið er væntanlega að verja Íslandsmeistaratitilinn ekki satt?

„Jú ég ætla samt að mæta á eina æfingu í viðbót áður en við förum að spá í markmiðum. Þetta er samt alltaf Keflavík og það breytist ekkert,“ sagði Sigurður.

Næsti leikur hjá Keflavík er gegn Hamar/Þór. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Við fáum nokkrar æfingar fyrir þann leik og sjáum svo hvernig þetta lítur út,“ sagði hann.

Eitthvað sem þú sérð strax núna að þið þið þurfið að breyta í leik liðsins?

„Já, hvort sem ég þarf þess eða ekki þá mun ég gera það því ég vill bara setja minn stíl á liðið vinna í ýmsum hlutum og maður þarf alltaf að vera vinna í hlutum, sníða hlutina betur að liðinu og fleira,“ sagði Sigurður.

Var eitthvað eitt sem þú hefðir viljað sjá fara betur hjá þínu liði í kvöld?

„Já, alls konar. Sóknarlega og varnarlega. Það er hellings pláss fyrir bætingu,“ sagði hann.

Þannig að við erum að fara að sjá ennþá betra Keflavíkurlið í næsta leik?

„Já ég á ekki von á öðru,“ sagði Sigurður að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert