Daisha Bradford átti stórleik fyrir Grindavík þegar liðið heimsótti Tindastól í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfubolta á Sauðárkróki í kvöld.
Leiknum lauk með átta stiga sigri Grindavíkur, 80:72, en Bradford skoraði 27 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar í leiknum.
Grindavík fer með sigrinum úr botnsæti deildarinnar og upp í það níunda en liðið er með 8 stig. Grindavík hafði tapað níu leikjum í röð í deildinni fyrir leik kvöldsins en síðasti sigurleikur liðsins var gegn Keflavík þann 29. október.
Tindastóll er áfram í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig en liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð eftir að hafa unnið fimm leiki í röð áður en kom að yfirstandandi taphrinu.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Tindastóll leiddi með einu stigi í hálfleik, 38:37. Grindvíkingar voru sterkari í þriðja leikhluta og leiddu með fimm stigum að honum loknum, 59:54. Sauðkrækingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta þar sem Grindavík leiddi allan tímann.
Isabella Ósk Sigurðardóttir átti mjög góðan leik fyrir Grindavík og skoraði 14 stig, tók 18 fráköst og gaf tvær stoðsendingar en Randi Brown var stigahæst hjá Tindastóli með 32 stig, 13 fráköst og sex stoðsendingar.