Körfuknattleiksdeild KFG hefur verið gert að greiða sekt vegna framkomu áhorfenda á leik liðsins gegn Breiðabliki í 1. deild karla en leikurinn fór fram þann 11. janúar.
Þetta kemur fram í úrskurði Aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, sem birtist á heimasíðu sambandsins.
„Ertu of skáeygður til að sjá þetta,“ lét einn áhorfandi út úr sér á leiknum og beindi orðum sínum í átt að dómara leiksins en það voru þeir Einar Valur Gunnarsson og Federick Alfred U Capellan sem dæmdu leikinn.
Myndband náðist af atvikinu þar sem heyrist glögglega að áhorfandi á leiknum beinir ókvæðisorðum að dómara leiksins.
KFG hefur verið gert að greiða sekt sem nemur 30.000 krónum en félagið sendi strax frá sér yfirlýsingu, eftir að málið kom upp, og baðst afsökunar á hegðun áhorfendans.
https://www.mbl.is/sport/korfubolti/2025/01/14/bidjast_afsokunar_a_rasiskum_ummaelum/