Markmiðið er að stoppa hetjukörfuboltann

Dominykas Milka sækir að körfu KR-inga.
Dominykas Milka sækir að körfu KR-inga. mbl.is/Skúli

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var ánægður með stóran sigur sinna manna á KR í Innri-Njarðvík í kvöld. Spurður út í lykilinn að sigrinum sagði Rúnar Ingi þetta.

„Það sem við náðum að gera til að byrja með var smá aðferð til að dreifa þeim betur þegar við vorum að koma boltanum inn á Milka (Dominykas Milka). Við reyndum að velja svolítið úr hvaða átt þeir væru að hjálpa þegar þeir kæmu í skiptingarnar og hvaða menn væru að hjálpa. Að sama skapi reyndum við að stjórna aðeins tempóinu sem hjálpaði mikið á móti liði sem skorar jafnvel helming stiga sinna úr hraðaupphlaupum og það gekk upp.“

Síðan gerðum við líka breytingar varnarlega frá síðasta leik gegn þeim og menn voru bara einbeittari og framkvæmdu vel í kvöld það sem við vildum gera og það útskýrir okkar sigur.“

Má segja að Njarðvíkingar hafi gefið KR-ingum eins konar náðarhögg með því hvernig liðið mætti til leiks með mikla grimmd og spilandi fast á KR í upphafi leiksins?

„Heildarframmistaðan í fyrri hálfleik skilaði sigrinum. Það gaf okkur þetta svigrúm til að eiga inni fyrir slæmum kafla eins og gerist í flestum 40 mínútna körfuboltaleikjum og við áttum inni fyrir 1-2 mínútum af slæmum kafla þar sem við hittum ekki og þeir keyrðu í bakið á okkur. Þó að þeir hafi komið með smá áhlaup þá sýndum við karakter.

Ég hrósaði mínum mönnum sérstaklega fyrir hvernig við fórum í gegnum sóknarleikinn þegar munurinn var kominn í 10 stig. Við náðum að svara þar sem við búum til góðar fléttur og finnum menn einn á móti körfunni þar sem þeir urðu að brjóta á okkur í stað þess að fara í sundur, drippla og taka erfið skot.

Við gerðum það í síðasta leik á móti Val þar sem við fórum í hetjubolta í 12 mínútur og töpuðum leiknum. Markmiðið er að hetjukörfuboltann og gera þetta frekar saman. Við náðum því í kvöld,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert