Þrjár úr íslensku deildinni stefna á EM

Esther Fokke leikur með Þór á Akureyri og hollenska landsliðinu.
Esther Fokke leikur með Þór á Akureyri og hollenska landsliðinu. Ljósmynd/Egill Bjarni

Þrjár konur úr íslensku úrvalsdeildinni í körfuknattleik leika í kvöld með landsliðum annarra þjóða í undankeppni Evrópumótsins.

Heil umferð, sú næstsíðasta, er leikin í undankeppninni og viðureign Tyrklands og Íslands hefst klukkan 16 í Izmir.

Körfuboltakonurnar þrjár gætu allar leikið í lokakeppni EM í sumar en lið þeirra eru öll í slag um annað sæti í sínum riðli. Fjögur af átta liðum sem enda í öðru sæti riðlanna komast á EM.

Ilze Jakobsone leikur með Tindastóli og landsliði Lettlands.
Ilze Jakobsone leikur með Tindastóli og landsliði Lettlands. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Julia Niemojewska úr Keflavík er í tólf manna hópi pólska landsliðsins sem heimsækir granna sína í Litháen. Pólland er í hörðum slag við Belgíu og Litháen um tvö efstu sæti C-riðils.

Esther Fokke úr Þór á Akureyri er í liði Hollands sem á heimaleik gegn Króatíu. Það er nánast hreinn úrslitaleikur um annað sæti A-riðils.

Ilze Jakobsone úr Tindastóli er í liði Lettlands sem á útileik gegn Ísrael. Það er nánast hreinn úrslitaleikur um annað sætið í E-riðli.

Hins vegar er að þessu sinni enginn leikmaður úr íslensku úrvalsdeildinni í liði Dana sem á fyrir höndum grannaslag á heimavelli gegn Svíum. Ena Viso og Sofie Tryggedsson, leikmenn Grindavíkur, eru ekki í lokahópi Dana eftir að hafa verið valdar í stærri hóp fyrir leikina.

Síðan á að sjálfsögðu íslenska liðið enn veika von um að komast á EM en til þess að eiga möguleika þarf það að vinna Tyrki í dag og svo Slóvakíu á útivelli á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert