„Mér fannst við mjög hægir sóknarlega, við töpuðum alltof mörgum boltum og þeir voru miklu frekari en við í fráköstunum. Það er svona auðvelda skýringin á þessu tapi,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari karlaliðs KR í körfubolta, spurður út í skýringu á 24 stiga tapi gegn Njarðvík í kvöld.
KR vann Njarðvík í bikarnum þann 20. janúar sl. með 49 stiga mun. Spurður út í svona mikinn viðsnúning milli leikja sagði Jakob þetta.
„Einhvern veginn voru þeir meira tilbúnir en við og tilbúnir í stríð. Við bökkuðum svolítið undan því og áttum erfitt með að finna lausnir sóknarlega og bara í hreinskilni þá áttum við erfitt með finna opin góð skot á hálfum velli þegar þeir voru búnir að stilla upp sinni vörn. Það er stóri munurinn frá því í síðasta leik sem við unnum.“
Njarðvíkingar mættu gríðarlega grimmir frá fyrstu mínútu og spiluðu fast á KR. Kom það ykkur á óvart?
„Nei, alls ekki. Ég var búinn að tala um það við mína leikmenn alla vikuna að þeir myndu mæta svona til leiks og við þyrftum að vera tilbúnir. Vorum það greinilega ekki því alveg frá fyrsta leikhluta lentum við undir í þessari baráttu. Mögulega fór það aðeins inn í hausinn á okkur sem lét okkur fara að hika og tapa boltum ásamt því að klikka á opnum skotum. En við vorum ekki tilbúnir í þessa baráttu þrátt fyrir að hafa talað um það fyrir leik.“
Er möguleiki á að það hafi átt sér stað eitthvað vanmat hjá þínum leikmönnum í kvöld í ljósi þess hversu stórt KR vann leik liðanna í bikarnum?
„Alls ekki. Njarðvíkingar hafa verið það góðir í vetur og búnir að vera í þessu þriðja sæti nánast allt tímabilið og núna komnir með Dwayne aftur þannig að nei, við vanmátum Njarðvík ekki.“
Ykkur tókst að vinna muninn niður í 10 stig í fjórða leikhluta sem gerði það að verkum að þetta var orðinn leikur aftur. Hvað var að gerast á þeim tímapunkti?
„Við náðum að opna aðeins gólfið sóknarlega. Síðan vorum við að frákasta betur í vörninni og vorum með fleiri skotmenn inn á. Við náðum þessu niður í 10 stig og fengum tvo þrista til að minnka muninn enn meira en það tókst ekki.“
Næsti leikur hjá ykkur er á móti Val í Frostaskjóli. Hverjir eru möguleikar KR á móti Íslandsmeisturunum?
„Við höfum verið fínir á heimavelli upp á síðkastið og þetta er stórleikur. Þessi lið eru á svipuðum stað í deildinni og það er mikilvægt fyrir okkur að fara með sigur inn í bikarvikuna sem er strax á eftir þeim leik og það er markmiðið,“ sagði Jakob Örn í samtali við mbl.is.