Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, fór gjörsamlega á kostum í kvöld með liði sínu, Maroussi, gegn Lavrio á útivelli í grísku úrvalsdeildinni.
Elvar, sem spilaði í 38 mínútur af 40, skoraði 20 stig fyrir Maroussi og átti hvorki fleiri né færri en 17 stoðsendingar í leiknum. Þar af átti hann sex stoðsendingar í fjórða leikhluta. Hann var með langflest framlagsstig allra leikmanna beggja liða, 34 talsins.
Þetta dugði þó ekki Maroussi því eftir gríðarlega jafna baráttu skoruðu heimamenn í Lavrio sigurkörfuna með þriggja stiga skoti á lokasekúndum leiksins.
Leikurinn var afar mikilvægur í hnífjafnri keppni í deildinni en Maroussi situr eftir í 11. sæti af 12 liðum á meðan Lavrio flaug úr tíunda sætinu upp í það sjötta með sigrinum.
Sex efstu liðin fara beint í úrslitakeppnina, liðin í sjöunda til tíunda sæti fara í umspil og tvö neðstu liðin þurfa að spila um áframhaldandi sæti í deildinni.