Lokaskotin geiguðu og fallið blasir við Hetti

Hilmar Smári Henningsson var enn og aftur í lykilhlutverki hjá …
Hilmar Smári Henningsson var enn og aftur í lykilhlutverki hjá Stjörnunni. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Stjarnan er áfram jöfn Tindastóli á toppi úrvalsdeildar karla í körfuknattleik og sendi Hött langaleiðina niður í 1. deild með sigri í æsispennandi leik liðanna á Egilsstöðum í kvöld, 86:83.

Stjarnan er með 28 stig eins og Tindastóll en Höttur situr eftir með 8 stig eins og Haukar og það eru átta stig í fjögur næstu lið þegar fjórum umferðum er ólokið.

Leikurinn var jafn og tvísýnn frá byrjun. Stjarnan var yfir  eftir fyrsta leikhluta, 18:17, en Höttur var stigi yfir í hálfleik, 47:46.

Sama jafnræðið hélt áfram í síðari hálfleiknum og staðan var 66:65 fyrir Hött eftir þriðja leikhluta. Austanmenn náðu góðum kafla í byrjun fjórða leikhluta og komust níu stigum yfir, 74:65.

Stjarnan jafnaði og komst í 83:79 þegar rúm mínúta var eftir.  Matej Karlovic svaraði með þriggja stiga körfu fyrir Hött, 83:82, en Orri Gunnarsson setti niður eitt vítaskot af tveimur fyrir Stjörnuna, 84:82. 

Matej Karlovic gat jafnað af vítalínunni þegar 19 sekúndur voru eftir en annað skotanna geigaði, 84:83. Í kjölfarið geigaði þriggja stiga skot Hattarmanna og spennan var rafmögnuð á Egilsstöðum.

Shaquille Rombley fór á vítalínuna fyrir Stjörnuna og hitti úr báðum, 86:83. Tvær skottilraunir Hattarmanna geiguðu í lokin og þar með fögnuðu Garðbæingar sigri.

Hilmar Smári Henningsson skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna og Jase Febres 20.

Matej Karlovic skoraði 18 stig fyrir Hött og Justin Roberts 17.

Gangur leiksins:: 4:4, 8:9, 10:14, 17:18, 19:25, 30:30, 38:44, 47:46, 50:48, 56:55, 64:59, 66:65, 71:65, 76:68, 78:77, 83:86.

Höttur: Matej Karlovic 18/5 fráköst, Justin Roberts 17/4 fráköst, Nemanja Knezevic 12/8 fráköst, Gustav Suhr-Jessen 9, David Guardia Ramos 9, Obadiah Nelson Trotter 6/5 stoðsendingar, Adam Eiður Ásgeirsson 5/4 fráköst, Adam Heede-Andersen 5, Eysteinn Bjarni Ævarsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 7 í sókn.

Stjarnan: Hilmar Smári Henningsson 24/6 fráköst, Jase Febres 20/8 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 9, Jaka Klobucar 9, Orri Gunnarsson 8/9 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 7, Shaquille Rombley 4/8 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 3/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 2/4 fráköst.

Fráköst: 31 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Daníel Steingrímsson.

Áhorfendur: 200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert