Með andúð á stjörnuleik NBA-deildarinnar

Stephen Curry, Damian Lillard og Kevin Durant fagna eftir sigurinn …
Stephen Curry, Damian Lillard og Kevin Durant fagna eftir sigurinn í stjörnuleiknum um helgina. AFP/Ezra Shaw

Stjörnuhelgin svokallaða í NBA-deildinni fór fram um helgina og ákvað sá er þetta skrifar að sleppa því að sækja hana heim norður í San Francisco-borg, þrátt fyrir að hafa fengið blaðamannapassa á nokkra Stjörnuleiki í gegnum árin hér í Kaliforníu.

Ástæðan fyrir mig var einföld. Leikmenn og forráðamenn deildarinnar hafa á síðustu tveimur áratugum smám saman ákveðið að leikurinn sjálfur ætti ekki að vera keppni sem slík – heldur sýning. Þegar svo er, erum við ekki lengur að tala um íþrótt, því flestir skilja íþróttir sem keppni þar sem þátttakendur reyna að sigra. Það er venjulega mikilvægur þáttur íþrótta og laðar fólk á viðburði eða skjáinn. Þegar þessi hluti er ekki lengur hluti af afbrigðinu, erum við ekki lengur að tala um íþróttaviðburð – og þar með er andúð mín á honum.

Allt getur verið sýning. Stjörnuhelgin sjálf í NBA er fín sýning með þriggja-stiga skotkeppninni og troðslukeppninni, en Stjörnuleikurinn sjálfur er löngu hættur að laða fólk að skjánum.

Þetta hefur gerst af mörgum ástæðum, en forráðamenn deildarinnar virðast máttvana í að fá leikmenn til að taka leikinn alvarlega. Það eina sem kannski gæti fengið leikmennina sjálfa til að taka þetta alvarlega – að láta bandarísku leikmenn deildarinnar keppa gegn þeim erlendu - er víst hlutur sem einhver er hræddur við að prófa. NHL-íshokkídeildin stóð frammi fyrir sömu stöðu og forráðamenn hennar brugðust ólíkt við með að setja upp fjögurra landa keppni í stað Stjörnuleiks-deildarinnar í ár. Það hefur reynst góð breyting ef marka má leikina sem fóru fram í síðustu viku og um helgina.

Af þessum sökum ætla ég mér ekki að skrifa um þessa Stjörnuhelgi í NBA, en spá frekar í gengi deildarinnar á þessum tímamótum eins og venjulega. Við erum að minnsta kosti að tala um alvöru íþrótt þar.

Þessi stjörnuleikur fer fram seinna í deildarkeppninni en venjulega. Hann kemur venjulega rétt um helming inn í deildarkeppnina, en nú eru liðin með 50-52 undir hattinn og 30 eftir. Sem sagt „alvarlegi“ parturinn af deildarkeppninni. Lið við barminn að komast í úrslitakeppnin geta nú ekki gefið einn einasta leik ódýrt.

Oklahoma City stendur undir væntingum

Eins og bent var á í þessum pistlum fyrir keppnistímabilið var augljóst að mörg lið myndu verða með í baráttunni um toppsætin í Vesturdeildinni. Fyrir þann sem hér skrifar virtist að Oklahoma City Thunder, Dallas Mavericks og Denver Nuggets yrðu þar líklegust. Bæði Oklahoma City og Denver hafa staðið undir þeim væntingum, þótt síðarnefnda liðið hafi byrjað deildarkeppnina illa.

Staða Oklahoma City á toppnum í deildinni nú kemur ekki á óvart. Thunder eru sjálfsagt með besta leikmannahópinn og fer þar fremstur í flokki Shai Gilgeous-Alexander, sem af mörgum er talinn einn af tveimur af þeim leikmönnum sem líklegastur er til að verða kosinn leikmaður deildarinnar í ár. Liðið hefur náð þessum árangri þrátt fyrir að miðherji liðsins, Chet Holmgren, hafi verið meiddur mestalla deildarkeppnina. Hann hefur þó hafið leik að nýju og það lofar ekki góðu fyrir það sem eftir er af deildinni.

Þetta er hraðleikandi lið þar sem þjálfarinn er óhræddur að nota varamannabekkinn til að halda dampinum gangandi.

Jokic óstöðvandi

Denver Nuggets hóf deildarkeppnina vestan megin illa, en smám saman skreið liðið upp stöðuna og er núna „heitasta“ liðið í deildinni – mest vegna frábærs leiks Nikola Jokic, sem hefur skorað 35 stig, tekið ellefu fráköst og sent ellefu stoðsendingar í síðustu átta leikjum liðsins. Allt sigrar. Serbinn er talinn sá leikmaður sem ætti að veita Gilgeous-Alexander mestu keppnina í kosningunni um leikmann ársins og frá mínum bæjardyrum séð ætti hann að vinna þá nafnbót – svo frábærlega hefur hann leikið alla deildarkeppnina.

Ef litið er hins vegar á stöðuna þegar aðeins um 30 leikir eru eftir af deildarkeppninni, eru Memphis Grizzlies sem hefur komið mest á óvart. Liðið er nú í öðru sætinu vestan megin. Fyrir ári síðan hafði liðið tapað 34 af 52 fyrstu leikjunum, en í ár aðeins sautján, mest vegna frábærs sóknarleik liðsins, en Grizzlies leika hraðan sóknarleik með stjörnuleikmanninn Ja Morant í broddi fylkingar. Liðið er með hæstu stigaskorunina í deildinni og flest stig í hraðaupphlaupum vegna hraðans.

Þessu hafa Grizzlies náð þrátt fyrir að leikmannahópurinn hafa átt við mikil meiðsl að stríða alla deildarkeppnina. Það virðist ekkert skipta máli þótt einn eða tveir af stjörnum liðsins séu meiddir í leikjum – liðið finnur alltaf leið til að fylla í skarðið. „Við höfum fundið leið til að vinna leiki einhvern veginn það sem af er,“ sagði þjálfari liðsins, Taylor Jenkins eftir sigur gegn Houston um daginn.

Hvort að liðið nái að halda þessum dampi þegar í úrslitakeppnina kemur í vor á eftir að koma í ljós, en varnarleikur bestu liðanna fer í annan gír þegar þar að kemur.

Los Angeles Lakers hafa einnig leikið vel það sem af er og koma Luka Doncic frá Dallas Mavericks er stærsta fréttin í deildinni á keppnistímabilinu, en varnarleikur liðsins er ekki nægilega góður eftir að Anthony Davis var sendur til Dallas í skiptunum fyrir Doncic til að geta komist í gegnum tvö eða þrjú topplið í Vesturdeildinni í úrslitakeppninni. 

Þannig að hægið á ykkur Lakers fólk!

Cleveland með öll vopnin 

Í Austurdeildinni er það Cleveland Cavaliers sem eru nú með góða forystu á toppnum í stöðunni, en sögufræg lið Boston Celtics og New York Kincks fylgja þar á eftir. 

Árangur Cleveland er afrakstur af góðum ákvörðunum sem forráðamenn liðsins hafa tekið undanfarin ár í leikmannaskiptum og háskólavalinu. Til að mynda hefur leikstjórnandi liðsins, Donovan Mitchell, sem kom til liðsins frá Utah Jazz fyrir þremur árum, sýnt sinn besta leik síðan hann kom inn í deildina fyrir átta árum síðan. 

Donovan er lykill hjá Cleveland og hæðin hjá framherjum og miðherjum liðsins – þá sérstaklega Jarrett Allen, Evan Mobley og Tristan Thompson. Þessir kappar gera andstæðingunum erfitt fyrir nálægt körfunni bæði í sókn og vörn. Af þeim sökum má búast við að Cleveland gæti haldið í fyrsta sætið í deildarkeppninni austan megin, og ef svo fer gæti liðið kannski komist í lokaúrslitin. Hlutur sem liðinu hefur ekki tekist síðan að LeBron James var þar á bæ.

Meistarar Boston yfirvegaðir 

Árangur Boston Celtics er dæmigerður fyrir meistaralið. Þegar lið vinnur titilinn, veit leikmannahópurinn nákvæmlega hvað það tekur að ná því markmiði og svo virðist sem að leikmenn Celtics séu lítið hræddir við að Cleveland haldi kannski fyrsta sætinu í Austurdeildinni út deildarkeppnina. Þar á bæ er yfirvegunin hátt skrifuð og sá er þetta skrifar hefur enn trú á að Boston gæti varið titilinn í sumar. Þeir hafa unnið sjö af síðustu níu leikjum sínum og eiga eflaust eftir að gefa Cleveland góða keppni um toppsætið enn.

Það er kannski eins gott að núverandi leikmannahópur Celtics nái að verja titilinn, því eigendur liðsins eru að selja það og næsta víst er að nýir eigendur liðsins séu ekki tilbúnir að eyða rúmlega hálfum milljarði dala næsta keppnistímabil í laun og lúxus skatt. Það mun því sjálfsagt verða breyting á hópnum næsta ár.

New York Knicks virðist eina liðið austan megin sem virðist líklegt að veita þessum tveimur toppliðum samkeppni, en Milwaukee Bucks eru ein ráðgáta. Það er aldrei að vita hvað kemur út úr því liði í hverjum leik. Kannski er tímabilið fyrir þennan leikmannahóp Bucks að gera alvarlega atlögu að titlinum útrunninn.

Það er erfitt að sjá önnur lið í deildinni komast í lokaúrslitin. Dallas Mavericks sýndi það þó í fyrra að allt er mögulegt í alvöru keppni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert