Kanadamaðurinn Craig Pedersen hefur þjálfað karlalandslið Íslands í körfuknattleik með góðum árangri í ellefu ár en samningur hans rennur út eftir Evrópukeppnina á þessu ári.
Mbl.is spurði Pedersen á hóteli landsliðsins í Berlín hvort hann og forráðamenn Körfuknattleikssambands Íslands hefðu sest niður til að ræða framhaldið og mögulegan nýjan samning.
„Nei, það hefur ekkert verið rætt. Einbeitingin á yfirstandandi verkefni er algjör, leikirnir tveir í þessum glugga og núna leikurinn í Ungverjalandi er það eina sem við hugsum um. Ég hugleiði þetta ekkert þessa dagana og reyni að halda allri einbeitingu á réttum stað.”
Þú ert búinn að þjálfa landsliðið í ellefu ár, það er ekki beint algengt í körfuboltanum, eða í öðrum íþróttum yfirleitt?
„Nei, það er ekki algengt en þetta er eitthvað sem ég hef svo virkilega notið að gera og gefið hjarta og sál í þetta starf. Þetta hefur verið algjörlega stórkostleg reynsla. Þegar ég fékk þetta tækifæri datt mér ekki í hug að það myndi þróast svona.
Það er ekki bara ég sem hef öðlast dýrmæta reynslu, heldur einnig fjölskyldan mín. Á sama tíma hefur körfuboltafjölskyldan á Íslandi getað notið þess að fylgja liðinu eftir á þessu ferðalagi þannig að þetta hefur verið frábært.”
Hvað gerirðu til viðbótar við að þjálfa íslenska landsliðið?
„Núna er ég með skólalið í Nyborg í Danmörku, er þar með 62 körfuboltastráka á minni könnu. Þeir eru 16-17 ára gamlir, allir fæddir 2008. Þetta er skólalið en við spilum eins og hefðbundið félagslið í þessum aldursflokki. Þetta er vinna sem ég elska, og fellur vel að mínu starfi sem landsliðsþjálfari, þannig að þetta gengur allt vel upp.”
Hvaða breytingar hefurðu helst séð í íslenskum körfubolta á þessum ellefu árum sem landsliðsþjálfari?
„Ég tel að íslensku félögin vinni stöðugt betra starf í að byggja upp unga leikmenn og kenna þeim hvernig á að spila. Þeir læra og meðtaka ákveðin einkenni, þeir læra til dæmis hvernig eigi að bregðast við þegar hlutirnir ganga ekki upp.
Þarna leggja félögin góðan grunn fyrir framtíðina og gera þessum ungu leikmönnum auðveldara að bæta sig þegar þeir verða eldri. Þetta er vinna sem yngri landsliðin á Íslandi hafa notið góðs af á undanförnum árum,” sagði Craig Pedersen við mbl.is en hann þjálfaði karlalið Svendborg í Danmörku í 12 ár áður en hann tók við íslenska landsliðinu, og lék áður með danska liðinu.
Ítarlegt viðtal við Craig Pedersen um leik Íslands gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn birtist í Morgunblaðinu í fyrramálið.