Íslenska deildin hefur aldrei verið betri

Ægir Þór Steinarsson er lykilmaður í landsliðinu og hjá Stjörnunni.
Ægir Þór Steinarsson er lykilmaður í landsliðinu og hjá Stjörnunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik og leikmaður Stjörnunnar, telur að íslenska úrvalsdeildin sé núna sterkari en nokkru sinni áður.

„Já, það er engin spurning, ég finn það klárlega,“ sagði Ægir þegar mbl.is spurði hann út í þetta atriði á hóteli íslenska landsliðsins í Berlín þar sem það hefur búið sig undir leikinn mikilvæga við Ungverja á fimmtudaginn.

„Fyrir nokkrum árum var hægt að fara í einhverja leiki í deildinni og telja að þú myndir vinna auðveldan sigur. Í dag er enginn leikur í deildinni þar sem þú spilar, á heimavelli eða útivelli, þar sem þú ert viss um sigur. Það finnst mér vera helsti munurinn.

Það eru fleiri góð lið í deildinni akkúrat núna en við höfum áður séð, öll liðin eru þannig samsett, sem er ótrúlega skemmtilegt. Ég er alltaf að reyna að svara þessari spurningu einhvern veginn. Við erum að styrkjast, þjálfunin er betri, leikmennirnir sterkari, breiddin meiri, o.s.frv. Ég elska hvað keppnin er orðin mikil og hvað menn leggja mikið í þetta og reyna að gera vel,“ sagði Ægir.

Engin töfralausn í útlendingamálum

Í vetur hefur verið talsvert rætt um fjölda útlendinga í íslensku úrvalsdeildinni. Ægir kvaðst vera á báðum áttum og ekki með neina töfralausn um hvernig þeim málum væri best háttað.

„Ég held að félögin verði bara að velja sína stefnu hvert fyrir sig. Menn þurfa að vita hvert þeir vilji stefna með sitt lið, og ef allir vilja vinna, þá verður það að vera þannig, ef menn ná að reka félögin vel.

Svo er hægt að segja að við viljum gefa fleiri leikmönnum tækifæri til að efla íslenskan körfubolta. Ég veit ekki hver eina rétta leiðin er í þessu, þetta verður að vera einhvers konar blanda, en við verðum að vera meðvituð um að við séum að gæta hagsmuna íslenskra leikmanna, og efla gæðin í deildinni á sama tíma,“ sagði Ægir Þór Steinarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert