Það var nánast súrrealískt

Tryggvi Snær Hlinason skorar í leiknum í Tyrklandi þar sem …
Tryggvi Snær Hlinason skorar í leiknum í Tyrklandi þar sem Ísland tapaði afar naumlega, 76:75. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, segir að íslenska landsliðið hafi sýnt í yfirstandandi undankeppni EM að það sé fjölhæft og það sé alls ekki nóg fyrir mótherjana að halda bara sér í skefjum.

Mbl.is bað Tryggva að fara yfir undankeppnina og spurði hvort ekki mætti segja að hún hafi gengið að óskum ef undan sé skilinn fyrri hálfleikurinn í heimaleiknum gegn Ítölum.

„Fyrsti glugginn fór mjög vel. Stóra málið var að sigra Ungverja í fyrsta leiknum og það opnaði alveg fyrir okkur mótið. Í kjölfarið kom grátlegt tap frammi fyrir mörg þúsund áhorfendum í Tyrklandi, þar sem við teljum okkur hafa átt sigur skilinn. En þeir settu niður stórt skot í lokin og unnu - þannig er körfuboltinn. Það hefði verið magnað að taka þann sigur.

Svo kom Ítalíuglugginn núna síðast. Við byrjuðum illa heima og töpuðum þeim leik á fyrri hálfleiknum. Ítalía er með geysisterkt lið og það var því nánast súrrealískt að fara svo og sigra Ítali á Ítalíu. Þegar maður horfir aftur á leikinn sér maður að við vorum bara magnaðir í þeim leik og sýndum okkar besta leik.

Það er alltaf gaman að taka þátt í því og þó ég hafi verið hálf ósýnilegur í þeim leik, var ekki með mikilvæga tölfræði, þá var það bara gleði að vinna mína vinnu. Ef lið ætla að loka á mig og skilja skotmennina okkar eftir fyrir utan, þá get ég fagnað með þeim.

Við erum með þannig lið í dag að við getum skorað úr hverri einustu stöðu og þegar þörf er á að menn geri eitthvað, þá gera þeir það,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert