Ægir Þór Steinarsson landsliðsmaður í körfuknattleik úr Stjörnunni telur að atvinnuferlinum erlendis sé lokið en samt sé vissara að útiloka aldrei neitt.
„Ég myndi segja að ég væri búinn með þann pakka. Maður veit svo sem aldrei ef eitthvert skemmtilegt ævintýri kæmu upp. Ég hef mjög gaman af því að vera á Íslandi og spila í úrvalsdeildinni, ég hef verið lengi erlendis og upplifað margt og fjölskyldan er ánægð með að vera á Íslandi.
En maður á aldrei að segja aldrei. Ef það birtist allt í einu ævintýri fyrir framan mann þá er eins gott að grípa það!" sagði Ægir Þór Steinarsson við mbl.is en hann er 33 ára gamall og á eftir rúmlega eitt ár af samningi við Stjörnuna.
Ægir hefur lengst af leikið á Spáni en hann hóf atvinnuferilinn árið 2013 með Sundsvall í Svíþjóð þar sem hann spilaði í tvö ár, og lék líka hluta úr tímabili í Argentínu.