Stefnir hraðbyri í sterkustu deildina

Jón Axel Guðmundsson á æfingu landsliðsins í Szombathely í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson á æfingu landsliðsins í Szombathely í kvöld. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, stefnir á að spila í spænsku ACB-deildinni, sterkustu landsdeild í Evrópu, á næsta tímabili.

Lið hans, San Pablo Burgos, stendur mjög vel að vígi á toppi spænsku B-deildarinnar en liðið hefur unnið 20 af 21 leik sínum til þessa.

„Mér finnst við vera með langbesta hópinn í deildinni og við þurfum bara að halda áfram að sýna það. Liðin í öðru og þriðja sæti eru tveimur leikjum á eftir okkur, þannig að við þurfum að halda áfram að sýna hvað í okkur býr og ef við gerum það þá eigum við klárlega að fara upp með þetta lið," sagði Jón Axel þegar mbl.is ræddi við hann um gang mála hjá honum og spænska liðinu.

Komnir með einn titil og ætla sér annan

Jón kom til San Pablo fyrir þetta tímabil frá Alicante í sömu deild og samdi á þann veg að samningurinn framlengist sjálfkrafa ef liðið tryggir sér sæti í efstu deild í vor.

„Já, það er helvíti góð beita að geta komist í þessa efstu deild á Spáni og svo vita allir að það er ekki oft möguleiki á að vinna titla, hvað þá með liði í Evrópu, þannig að það er alltaf gaman að vinna titil, sama hver hann er. Við erum búnir að vinna einn titil í vetur, í bikarnum, og ef við höldum áfram að spila svona ætti ekkert lið í þessari deild að stoppa okkur," sagði Jón Axel um stöðuna og framhaldið.

Er félagið tilbúið til að láta að sér kveða í efstu deild?

„Já, algjörlega. San Pablo var í deildinni fyrir fjórum árum og vann Meistaradeild Evrópu tvisvar í röð, 2020 og 2021. Þetta er þekkt félag í Evrópu og það hafa verið settir í það miklir peningar undanfarin þrjú ár. Þeir ætla virkilega að fara upp og eru með langbestu áhorfendurna á Spáni, finnst mér. Áhorfendur vilja það, leikmennirnir vilja það og stjórnin vill það. Það er kominn tími fyrir félagið að leika aftur í bestu deildinni.

Þetta er klárlega spennandi verkefni, það er alltaf gaman að spila leikina og maður finnur stemninguna, hve mikið fólkið þráir að fara upp. Körfuboltinn er vissulega bara vinnan mín en í svona umhverfi vill maður svo virkilega gera eitthvað stórt fyrir þetta stuðningsfólk."

Ekki bara til að vera með

Spænska deildin er það sterk að meirihluti liðanna, eða um 13 af 18, komast í Evrópukeppni. Jón Axel segir að þangað stefni félagið tvímælalaust.

„Já, ef við komumst upp er stutt í að komast í baráttu um Evrópusæti og það er klárlega markmið félagsins að ná þangað. Ef við förum upp, þá verður það ekki bara til þess að vera með. Þeir vilja ná eins langt og hægt er. Ef þetta gengur eftir verður klárlega settur enn meiri peningur í liðið á næsta tímabili," sagði Jón Axel Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka