Umræðan er viðkvæm

Erlendir leikmenn eru áberandi í úrvalsdeildinni og þrír þeirra sem …
Erlendir leikmenn eru áberandi í úrvalsdeildinni og þrír þeirra sem eru nú hjá íslensku liðunum hafa spilað í NBA-deildinni, eins og Ty-Shon Alexander hjá Keflavík. mbl.is/Eyþór Árnason

Craig Pedersen, þjálfari karlalandsliðsins í körfuknattleik, segir að umræðan um of marga erlenda leikmenn í íslensku úrvalsdeildinni sé viðkvæm og málið þurfi að skoða mjög vel.

Að undanförnu hafa komið fram gagnrýnisraddir um að efnilegir íslenskir leikmenn fái takmörkuð tækifæri í deildinni þar sem félögin geti nánast hömlulaust fengið erlenda leikmenn í sínar raðir.

Átta af þrettán leikmönnum íslenska landsliðsins sem mætir Ungverjum í Szombathely í lykilleik í undankeppni EM á fimmtudaginn leika í úrvalsdeildinni.

„Ég var einmitt að ræða um þetta við einn okkar leikmanna áðan. Þetta er ákveðin jafnvægislist. Erlendu leikmennirnir gera deildina sterkari og hávaxnir leikmenn eru fleiri, sem er gott fyrir landsliðsmennina sem spila á Íslandi,“ sagði Pedersen þegar mbl.is spurði hann álits á þessari stöðu.

„En auðvitað þýðir þetta um leið að efnilegir íslenskir leikmenn fá færri mínútur á vellinum, og stundum þýðir það að ungir leikmenn fá ekki eina einustu mínútu, sem getur verið afar þungt og fyrir vikið sjá þeir ekki fram á að fá nokkur tækifæri til að spila í deildinni.

Vonandi geta þeir allir haldið áfram því þróun ungra leikmanna á Íslandi er gríðarlega mikilvæg fyrir körfuboltann í landinu og íslenska landsliðið. Þetta er viðkvæm staða þar sem reyna þarf að hafa jafnvægið rétt. Deildin sé sterk og samkeppnin hörð, en um leið fái ungir leikmenn hvatningu og markmið til framtíðar. Þetta er ekki auðvelt, það er ekkert svart og hvítt í þessu,“ sagði Craig Pedersen.

Ítarlegt viðtal við Craig Pedersen um leik Íslands og Ungverjalands í undankeppni EM á morgun er í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert