Einn samning enn hjá stærra liði

Martin Hermannsson á æfingu landsliðsins í Szombathely í gærkvöld.
Martin Hermannsson á æfingu landsliðsins í Szombathely í gærkvöld. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson er þrítugur og hefur leikið sem atvinnumaður í körfuknattleik frá 2016. En hann telur sig eiga nóg eftir og jafnvel ættu bestu árin á ferlinum að vera fram undan.

Martin kom aftur til Alba Berlín síðasta sumar eftir fjögur ár hjá Valencia og er með samning til sumarsins 2026. Hann kveðst þegar vera farinn að hugsa lengra.

„Sem íþróttamaður viltu vera að sem lengst og ná að kreista sem mest út úr ferlinum. Ég er bara þrítugur, og í dag er það ekki eins og vera þrítugur í gamla daga. Bestu leikmenn í Euroleague í dag eru 33-35 ára gamlir margir hverjir, þannig að mig langar rosalega að taka einn samning í viðbót í aðeins stærra liði í Evrópu. Vera þá í aðstæðum þar sem barist er um titil í landsdeild og reyna að komast í eitt af fjórum efstu sætunum í Euroleague,” sagði Martin þegar mbl.is spurði hann um framtíðaráætlanirnar.

Reyndu að kaupa mig í vetur

„Það hefur alveg verið möguleiki á því, í vetur reyndu slík lið að kaupa mig frá Alba. Ég er kominn með þannig stöðu að félögin í Evrópu vita hvað ég get og vita hvar þau hafa mig. Það eru ekki svo margir sem hafa spilað þetta lengi á þessu stigi. Lið í Euroleague taka ekki sénsa á leikmönnum, þau taka bara leikmenn þegar þau vita hvað þau eru að fá. Þannig að ég er mjög opinn fyrir öllu.

Mér líður hins vegar rosalega vel hjá Alba og það væri líka geggjað að vera hérna út ferilinn. En hitt er galopið og kemur bara í ljós,” sagði Martin Hermannsson.

Ítarlega er rætt við Martin um leik Ungverjalands og Íslands í undankeppni EM í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka