„Við grófum okkur allt of djúpa holu,“ sagði Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Ungverjalandi í undankeppni EM í kvöld. Urðu lokatölur 87:78.
Eftir góða byrjun fór að síga á ógæfuhliðina í öðrum leikhluta sem Ungverjar unnu 28:11. Þrátt fyrir hetjulega baráttu tókst Íslandi ekki að jafna í seinni hálfleik.
„Þeir byrjuðu að vera áræðnir í vörninni og ýttu okkur úr hlutunum. Við misstum taktinn í sókninni og þeir skoruðu allt of auðveld stig og voru að fá skot alveg við hringinn. Við vorum ekki nógu harðir. Við vorum með núll villur eftir sjö mínútur í öðrum leikhluta.
Í svona leik verður þú að vera harður og það byrjar ekki hjá okkur fyrr en Sigtryggur Arnar kemur inn á. Það er svekkjandi að horfa til baka og sjá að við vorum ekki nógu harðir,“ sagði Njarðvíkingurinn.
Íslenska liðið minnkaði muninn niður í fimm stig undir lokin en með fjögurra stiga tapi væri sætið á lokamóti EM tryggt. Ungverjar voru hins vegar betri á allra síðustu mínútunum.
„Seinni hálfleikurinn var betri en þegar þú þarft að elta svona lengi verðurðu þreyttur í löppunum og skotin verða stutt og skökk. Það má ekkert út af bregða. Þetta var erfitt. Við kveiktum aðeins í þessu með barningi í lokin en við náðum ekki alveg þessum síðasta séns. Þeir settu þrist á mikilvægri stundu.“
Ísland mætir Tyrklandi á heimavelli á sunnudaginn kemur og með sigri þar er sætið á lokamótinu tryggt. „Vonandi verður Laugardalshöllin troðfull. Við viljum klára þetta sjálfir,“ sagði Elvar.