„Við erum ennþá með þetta í okkar höndum," sagði Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, við mbl.is eftir ósigurinn gegn Ungverjum í Szombathely í kvöld, 87:78.
Ísland mátti tapa með fjórum stigum en níu stiga tapið þýðir að annað hvort verður Ísland að vinna Tyrkland í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöldið, eða Ungverjar að tapa gegn Ítalíu á útivelli, til að Ísland komist á EM 2025.
„Eftir að við náðum forystu í byrjun leiks hikuðum við um tíma og Ungverjarnir komu sér í gang. Við náðum að laga okkar leik í seinni hálfleik en Ungverjar eru með gott lið og þeir spiluðu bara vel.
Við köstuðum þessu ekkert frá okkur og þetta var fyrst og fremst erfiður útileikur. Við erum ennþá algjörlega með EM-sætið í okkar höndum og við munum mæta brjálaðir til leiks gegn Tyrkjum í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöldið," sagði Tryggvi.
Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var íslenska liðið búið að koma sér inn í leikinn á ný eftir að hafa lent 19 stigum undir í byrjun fjórða leikhluta.
„Já, við vorum komnir í góðan séns þegar nokkrar mínútur voru eftir. Þá vörðumst við mjög vel, en svo náðu þeir sóknarfrákasti þrisvar. Við ákváðum að brjóta ekki á Reuvers í lokasókninni þeirra en hann skoraði - og það var virkilega stórt skot," sagði Tryggvi.
Nate Reuvers og Zoltán Perl áttu frábæran leik með Ungverjum og Tryggvi sagði að það hefði gert útslagið.
„Þessir tveir náðu að rífa sig í gang og við máttum ekki leyfa þeim það. Núna megum við vera pirraðir yfir þessum leik og úrslitum þangað til við komum upp á hótel. Þá tekur bara næsti kafli við. Núna eru það Tyrkirnir á heimavelli," sagði Tryggvi Snær Hlinason.