Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, var svekktur eftir tap íslenska liðsins gegn því ungverska í undankeppni EM í kvöld. Ísland gat tryggt sér sæti á lokamótinu með sigri eða minna en fimm stiga tapi en lokatölur urðu 87:78.
„Við byrjuðum vel en svo nýttu þeir lengdina sína, skutu vel fyrir utan og fengu aukatækifæri í sókninni með sóknarfráköstum. Þessi aukaskot eru mikilvæg eins og sást í síðasta skotinu þeirra. Þeir skoruðu þriggja stiga eftir sóknarfrákast,“ sagði Pedersen í samtali við mbl.is eftir leik.
Tryggvi Snær Hlinason náði sér ekki almennilega á strik í fyrri hálfleik en gerði betur í seinni hálfleik. Elvar Már Friðriksson, Kristinn Pálsson og Martin Hermannsson léku einnig vel að marki kanadíska þjálfarans.
„Tryggvi gerði mjög vel í seinni hálfleik og Kristinn Pálsson komst betur inn í leikinn. Elvar og Martin spiluðu líka vel. Að lokum nýttu þeir hins vegar stærðina vel.“
Ísland leikur við Tyrkland á sunnudag og gulltryggir sér sæti á lokamótinu með sigri.
„Við megum ekki vera of súrir. Það er alltaf erfitt að vinna á útivelli í Evrópu og við verðum að vera með höfuðið uppi og vera klárir í sunnudaginn,“ sagði Pedersen.