Höllin í Szombathely í Ungverjalandi þar sem Ísland mætir heimamönnum í lykilleik í undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik í dag er óvenjuleg að einu leyti.
Áhorfendastúkur eru á þremur hliðum hallarinnar en á þeirri fjórðu, fyrir aftan aðra körfuna, er málað listaverk sem sýnir gamlan leikvang í rómverskum stíl.
Þar er án efa vísað til uppruna borgarinnar en Szombathely er elsta borg Ungverjalands og er sögð hafa verið stofnuð af Rómverjum árið 45.
Höllin heitir Arena Savaria og þar er önnur tilvísun í uppruna borgarinnar sem hét upphaflega Savaria. Höllin var byggð árið 2007 og rúmar 4.000 áhorfendur á körfuboltaleikjum en þar léku Ungverjar einnig tvo fyrri heimaleiki sína í undankeppninni.
Þann fyrri, gegn Ítalíu, sáu 3.000 áhorfendur en Ítalir unnu þann leik 83:62. Síðan mættu 2.500 manns á leik Ungverja gegn Tyrkjum en Tyrkir höfðu þar betur með naumindum, 81:76.
Höllin er heimavöllur Falco, eins af sterkustu körfuboltaliðum Ungverjalands, en með því leikur nær helmingur leikmannahóps Ungverja og þeir fá því eflaust góðan stuðning á leiknum í dag.
Íslenska liðið er á lokaæfingu sinni fyrir leikinn í Arena Savaria þessa stundina.
Viðureign Ungverjalands og Íslands hefst klukkan 17 og er lýst beint á mbl.is.