Spennufall eftir allar tilfinningarnar

Martin Hermannsson með boltann í kvöld.
Martin Hermannsson með boltann í kvöld. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Við misstum þetta frá okkur í öðrum leikhluta,“ sagði Martin Hermannsson, stigahæsti leikmaður Íslands í tapinu gegn Ungverjalandi á útivelli í undankeppni EM í körfubolta, í samtali við mbl.is.

Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti en það ungverska tók síðan öll völd á vellinum og unnu annan leikhluta 28:11.

„Þetta er fegurðin við körfuboltann. Þetta er svo fljótt að breytast. Mér fannst við byrja vel og gerðum það sem við ætluðum að gera. Við gerðum þetta óþægilegt fyrir þá en svo hættum við því. Við byrjuðum ekki aftur fyrr en í lokin þegar við vorum með bakið upp við vegg.

Auðvitað snýst þetta um orku og sjálfstraust en þeir voru mjög flottir í dag. Þeir voru kærulausir og það var sama hver skaut. Það gekk einhvern veginn allt upp. Stundum verður þú bara að þakka mótherjunum fyrir leikinn og segja til hamingju. Þeir voru betri í dag,“ sagði Martin.

Kinnhestur og spennufall

Íslenska liðið minnkaði muninn í fimm stig þegar skammt var eftir en náði ekki að fylgja því eftir. Fjögurra stiga tap hefði verið nóg fyrir Ísland en lokatölur urðu 87:78.

„Það er smá svekkjandi í lokin að ná þessu ekki niður í fjögur stig. Það var séns til þess. Þetta er ógeðslega svekkjandi og smá kinnhestur. Það er líka spennufall eftir allar tilfinningarnar fyrir leik og í aðdragandanum.“

Ísland tryggir sér sæti á lokamótinu með sigri á Tyrklandi á sunnudaginn. Tap þar getur líka dugað, ef Ítalía vinnur Ungverjaland á heimavelli.

„Er ekki skemmtilegra að gera þetta á heimavelli fyrir framan fulla höll? Við ætlum að gefa allt í þetta og njóta þess að spila. Menn voru of fljótir að hengja haus í dag og pirra sig of auðveldlega. Við viljum brosa og hafa gaman,“ sagði Martin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert