Ungverjar unnu og Tyrkjaleikurinn ræður úrslitum

Ungverjar geta enn gert EM-draum Íslendinga að engu eftir sigur í viðureign liðanna í fimmtu og næstsíðustu umferð undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik í Szombathely í Ungverjalandi í kvöld, 87:78.

Ísland er með fjögur stig og Ungverjaland tvö fyrir lokaumferðina á sunnudag þegar Ísland fær Tyrkland í heimsókn og Ungverjar fara til Ítalíu, en bæði Tyrkir og Ítalir hafa þegar tryggt sé sæti á EM.

Ungverjar eru með þessum sigri yfir í innbyrðis viðureignum gegn Íslandi og ná því þriðja sætinu ef liðin enda jöfn að stigum. Staðan er því sú að Ísland þarf að vinna Tyrkland til að fara á EM í lok ágúst, en að öðrum kosti treysta á að Ungverjar sigri ekki Ítali á sama tíma.

Elvar Már Friðriksson í eldlínunni.
Elvar Már Friðriksson í eldlínunni. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Byrjunin lofaði góðu

Byrjunin lofaði svo sannarlega góðu hjá íslenska liðinu sem spilaði grimman varnarleik og var komið í 11:2 eftir aðeins rúmlega fjórar mínútur. Tvær þriggja stiga körfur Martins Hermannssonar áttu drjúgan þátt í því og með þriðja þristinum kom hann Íslandi í 14:4.

En Ungverjar voru fljótir að ná áttum, jöfnuðu og komust yfir undir lok fyrsta leikhluta. Ægir Þór Steinarsson svaraði því með þriggja stiga körfu og Ísland var yfir að honum loknum, 21:20.

Martin Hermannsson með boltann í dag.
Martin Hermannsson með boltann í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Slæmar sex mínútur

Eftir fjórar mínútur í öðrum leikhluta stóð 30:28, Ungverjum í hag. Þá hrökk allt í baklás hjá íslenska liðinu í sókn og vörn og Ungverjar skoruðu 18 stig gegn fjórum á síðustu sex mínútum fyrri hálfleiks. Staðan var skyndilega orðin 48:32 þegar flautað var til hálfleiks og ljóst að erfið barátta væri framundan í síðari hálfleiknum.

Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson báru uppi sóknarleik Íslands í fyrri hálfleik, Martin skoraði 13 stig og Elvar 9. Tryggvi Snær Hlinason skoraði hins vegar ekki eitt einasta stig og tók aðeins tvö fráköst í fyrri hálfleik og munaði heldur betur um minna en Ungverjar náðu að loka hann nánast alveg út úr leiknum.

Elvar Már Fiðriksson sækir að körfu Ungverjalands í dag.
Elvar Már Fiðriksson sækir að körfu Ungverjalands í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Ungverjar héldu 12 til 16 stiga forskoti lengst af í þriðja leikhluta en batamerki voru á íslenska liðinu. Martin bætti við tíu stigum og minnkaði muninn í 62:52. Ungverjar komu forskotinu hins vegar í 15 stig á ný áður en leikhlutanum lauk og þá stóð 72:57.

Allt opið á ný

Íslandi nægði að koma muninum niður í fjögur stig til að tryggja sér EM-sætið en Ungverjar gáfu hvergi eftir þegar fjórði leikhluti hófst og komust í 78:59 í byrjun hans.

En þá kom góður kafli sem Kristinn Pálsson lauk með þriggja stiga körfu og staðan var skyndilega 78:69. Fimm stig í EM og fimm mínútur eftir.

Íslenskir stuðningsmenn láta í sér heyra.
Íslenskir stuðningsmenn láta í sér heyra. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Elvar Már Friðriksson minnkaði muninn í 81:72 með öðrum þristi rétt á eftir og allt var galopið áfram. Tryggvi tróð tvisvar í röð og skyndilega stóð 81:76 og enn tvær og hálf mínúta eftir. EM var innan seilingar!

Ungverjar héldu út á lokakaflanum

En Ungverjar komust í 84:76 og náðu svo aftur boltanum þegar 80 sekúndur voru eftir. Haukur Helgi Pálsson svaraði, 84:78, og þetta var enn hægt. En Ungverjar náðu tveimur sóknarfráköstum í næstu sókn og tóku síðan leikhlé þegar 18 sekúndur voru eftir. Ísland varð að ná boltanum og skora. Nate Reuvers gerði svo út um leikinn með þriggja stiga skoti, 87:78. Níu sekúndur og Ísland þurfti fimm stig. Tvö skot geiguðu og sigurinn var Ungverja sem eiga enn von.

Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson voru yfirburðamenn í íslenska liðinu. Martin skoraði 25 stig og Elvar 20. Tryggvi Snær Hlinason skoraði 12, Kristinn Pálsson 8, Haukur Helgi Pálsson 4, Ægir Þór Steinarsson 3, Jón Axel Guðmundsson 3 og Styrmir Snær Þrastarson 3

Tryggvi tók 11 fráköst og Elvar átti 10 stoðsendingar.

Zoltán Perl átti stórleik með Ungverjum og skoraði 25 stig. Dávid Vojvoda skoraði 14.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ungverjaland 87:78 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert