Við förum alltaf erfiðu leiðina

Ægir Þór Steinarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/FIBA

„Það var eitthvað í loftinu undir lokin að leikurinn væri okkar en það gekk því miður ekki eftir," sagði Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, við mbl.is eftir ósigurinn gegn Ungverjum í Szombathely í kvöld, 87:78.

Með fjögurra stiga tapi hefði Ísland verið komið á EM en þarf nú helst að vinna Tyrki í lokaumferðinni á sunnudagskvöldið, í Laugardalshöllinni, eða treysta á að Ungverjar tapi fyrir Ítölum á sama tíma.

„Ég hefði óskað þess að varnarleikurinn okkar hefði verið betri, svona heilt yfir, en við verðum að gefa Ungverjum hrós fyrir að hafa sett niður stór skot.

En það er samt bara þetta: Vörnin verður að vera agressíf, vörnin verður að vera okkar, og við verðum að ná að sprengja upp leikinn. Annars erum við í því hlutverki að elta.

Það vantaði þetta á köflum en samt var eitthvað í loftinu í lokin, að við værum að taka þetta. Við vorum einni eða tveimur sóknum frá því að ná okkar takmarki," sagði Ægir.

Þar með er allt undir í leiknum gegn Tyrkjum á sunnudagskvöldið.

„Þetta er enn í okkar höndum. Auðvitað litum við á þetta sem úrslitaleik, sem þetta var, en svona er það með okkur, við förum alltaf erfiðu leiðina í lífinu og það þarf stundum að gera það til að ná árangri.

Við notum ferðalagið heim á hótelið í rútunni til að vera svekktir, og svo er það bara kassinn fram og við ætlum að láta vaða á þetta á okkar heimavelli gegn Tyrkjum á sunnudagskvöldið," sagði Ægir Þór Steinarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert